TINNA, fjölskylduefling í Breiðholti á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, hlaut í dag Fjölskylduviðurkenningu SOS Barnaþorpanna á Íslandi á alþjóðlegum degi fjölskyldunnar.
Viðurkenningin er veitt til að heiðra og vekja athygli á framúrskarandi góðu starfi hér á landi í þágu barnafjölskyldna. Að mati valnefndar endurspeglar TINNA gildi SOS Barnaþorpanna um mikilvægi fjölskyldunnar og að börn geti alist upp í ástríku og öruggu umhverfi. Starfsfólk TINNU vinnur persónulegt og óeigingjarnt starf, oft utan hefðbundins vinnutíma í þágu barnafjölskyldna í Breiðholti.
Tilgangur TINNU-verkefnisins er að auka lífsgæði foreldra og barna, rjúfa vítahring fátæktar og um leið félagslega arfinn þ.e. að auka líkurnar á að börnum þessara foreldra vegni betur í framtíðinni en foreldrunum.
Verkefnið TINNA er klæðskerasniðið fyrir hvern og einn þátttakanda eftir þörfum hvers og eins. Námskeiðin og fræðslan er unnin í samvinnu við þarfir óskir þátttakenda og flestir fá námskeiði í PMTO eða foreldrafærni.
Stuðningur við börnin hjá TINNU er með ýmsum hætti, metnir eru áhættuþættir í lífi barnanna og þeim veittur stuðningur við hæfi. Þá er lögð áhersla á að börnin njóti sama aðgengis og önnur börn að hvers konar íþrótta- eða tómstundaiðkun.
TINNA er hluti af Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi en þar er mjög gott aðgengi að þjónustu og mikið utanumhald frá félagsráðgjöfum sem sinna ráðgjöf og eftirfylgd. Verkefnið heyrir undir þjónustumiðstöð Breiðholts og er staðsett í fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi.
Fjölskylduefling er einn af stærstu þáttunum í starfsemi SOS Barnaþorpanna og hefur komið í veg fyrir aðskilnað hundruð þúsunda barna frá foreldrum sínum í 126 löndum. Í valnefnd vegna fjölskylduviðurkenningar SOS Barnaþorpa voru: Drífa Sigfúsdóttir og Sigrún Júlíusdóttir, þaulreyndar í störfum sem varða málefni fjölskyldunnar, Nichole Leigh Mosty, fulltrúaráði SOS Barnaþorpanna á Íslandi og Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS.