Stockfish kvikmyndahátíðin er rétt handan við hornið

Menning og listir Mannlíf

""

Á hátíðinni verða sýndar margverðlaunaðar kvikmyndir og heimildamyndir frá öllum heimshornum ásamt öðrum viðburðum. Myndirnar hafa verið sýndar á stærstu hátíðum heims eins og Cannes Film Festival, Sundance og Toronto Film Festival og verða nú sýndar í Reykjavík. 

 

Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival & Industry Days verður haldin í fimmta sinn dagana 28. febrúar til 10. mars 2019 í Bíó Paradís. Á hátíðinni verður einnig í fyrsta sinn hreyfimyndahátíðin Physical Cinema Festival undir leiðsögn Helenu Jónsdóttur. Physical Cinema Festival sýnir listrænar stuttmyndir, vídeó innsetningar og heimildamyndir sem allar eiga það sameiginlegt að vera á landamærum dans, myndlistar, hljóðheims og kvikmynda.

Ferðavefurinn FlightNetwork.com valdi kvikmyndahátíðina Stockfish Film Festival sem eina af 30 bestu hátíðum heims!

Menningar- og ferðamálaráð veitir Stockfish 4,5 m.kr. styrk árlega en hátíðin hefur skipað fastan sess meðal kvikmyndaáhugafólks um allan heim og fer áhuginn á hátíðinni vaxandi. Val FlightNetwork byggist á rannsókn og viðtölum við fólk sem sækir hinar ýmsu hátíðir. Útskýringuna á valinu segja þeir vera að á hátíðinni er að finna sérvaldar verðlaunamyndir víðs vegar að úr heiminum og glæsilega og fjölbreytta dagskrá.

Á hátíðinni fá gestir mikla innsýn í gerð myndanna og tækifæri til að eiga samtal við leiksjóra eftir sýningar með Q&A. Kvikmyndafólk og allt áhugafólk um kvikmyndir nýtur góðs af Masterclass umræðum við hæfileikafólk í faginu ásamt pallborðsumræðum um gerð kvikmynda. Það er landinu mikill fengur að fá þennan gæðastimpil þar sem fólk alls staðar að úr heiminum mætir sérstaklega til landsins til að sækja hátíðina. Sprettfiskurinn er hluti af hátíðinni en sá þáttur í hátíðinni veitir ungu sem og reyndu kvikmyndagerðafólki tækifæri til að sýna stuttmyndir sínar. Dagskrá Stockfish Film Festival.