Innan tíðar verður lögð fram til samþykktar ný stefna Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra til ársins 2025 með áherslu á húsnæði , snemmtæka íhlutun, forvarnir og skaðaminnkandi nálgun.
Nýja stefnan var meðal þess sem Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs kynnti á Velferðarkaffi um málefni heimilislausra sem haldið var á Vitatorgi í morgun. Einnig verður stefnan send til umsagnar helstu hagsmunaaðila sem koma að þessu málefni.
Virðing, samstarf og ábyrgð
Í stefnunni verður notast við hugtakið „heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir“ og kemur það í stað orðsins utangarðsfólk, sem hefur hin síðari ár sætt gagnrýni og þykir gildishlaðið.
Þegar fjallað er um heimilisleysi í stefnunni er stuðst við skilgreiningu Evrópusambandsins (ETHOS) þar sem er átt við einstaklinga sem glíma við margþættan vanda, t.d. vímuefna- eða geðrænan vanda, þroskafrávik eða hafa lent í miklum áföllum í lífinu, búa við óstöðugleika í búsetu og þarfnast margháttaðs stuðnings. Stuðst er við hugmyndafræðina „húsnæði fyrst“ en í henni felst mikilvægi þess að að hver einstaklingur eigi heimili sem auðveldar viðkomandi að nýta sér þá þjónustu sem er fyrir hendi í samfélaginu. Lögð er áhersla á það í stefnunni að enginn ætti að sofa úti, dvelja í neyðarhúsnæði eða útskrifast af stofnun eða verða borinn út án þess að annað úrræði standi til boða.
Við undirbúning stefnumótunnar var litið til þess sem verið er að gera í nágrannalöndunum og skoðað hvaða áherslum hefur verið fylgt sem borið hafa mælanlegan árangur. Þar eru áberandi stefnur sem byggja á skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði um „húsnæði fyrst“ auk samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Ákveðið var að horfa til þessara þátta við mótun stefnunnar hér og mikilvægi samstarfs sveitarfélaga, ríkis og frjálsra félagasamtaka. Starfsfólk velferðarsviðs sem vinnur með heimilislausum, sem og allt starfsfólk Reykjavíkurborgar, skal hafa það að leiðarljósi að sýna virðingu á öllum stigum þjónustunnar. Áhersla er lögð á að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og ekki síst að draga úr fordómum í samfélaginu. Öll þjónusta við heimilislausa skal stuðla að framangreindum þáttum auk samstarfs þvert á stofnanir og samtök.
Velferðarsvið er þegar að vinna að því að að opna nýtt neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur. Þá á að byggja 25 smáhýsi, sem verða á fimm lóðum í Reykjavík. Keyptar verða eða leigðar 20 íbúðir fyrir einstaklinga sem eru á bið eftir félagslegu leiguhúsnæði. Komið verður upp búsetuúrræði fyrir sex konur með geð- og fíknivanda. Auk ofantaldra atriða á að auka daglega þjónustu við heimilislausa og bæta húsnæði sem fyrir er. Umfram allt á að auka samráð og samstarf á milli kerfa og stofnanna sem tryggja samfellu í þjónustu og kemur í veg fyrir heimilisleysi t.d. þegar fólk útskrifast af áfangaheimilum og úr fangelsum. Einnig verður haft samráð við heimilislausa um hvernig þjónustunni væri best háttað. Með stefnunni mun fylgja aðgerðaráætlun.
Í stýrihópi um mótun stefnunnar voru auk Heiðu Bjargar borgarfulltrúa samfylkingarinnar sem var formaður hópsins þau Alexandra Briem frá Pírötum, Elín Oddný Sigurðardóttur frá Vinstri grænum, Egill Þór Jónsson frá Sjálfstæðisflokknum og Kolbrún Baldursdóttir frá Flokki fólksins.
Skaðaminnkandi nálgun
Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, sagði frá VOR-teymi, vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar, sem veitir heimilislausum þjónustu. Hlutverk þeirra er að tengja heimilislaust fólk við þá þjónustu sem þau þarfnast hjá ríki, borg eða frjálsum félagasamtökum. Þau horfa bjartsýn á nýtt verklag í kjölfar nýrrar stefnu með áherslu á húsnæði fyrst og skaðaminnkandi aðferðum. Undir þetta tók Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, hún sagði áríðandi að vinna þyrfti á fordómum í samfélaginu og að fólk þyrfti að vinna saman þvert á kerfi. Hún benti á mikilvægi þess að meðhöndla fólk með fíknivanda án þess að ætla lækna það. Hún benti einnig á nauðsyn þess að heimilislausir hefðu greiðan aðgang að heilbrigðis- og félagsþjónustu. Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar talaði um sérstöðu kvenna í neyslu og Svala Jóhannesdóttir, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar talaði um aðstæður og fjölgun sprautufíkla og tók undir mikilvægi þess að vinna saman að skaðaminnkandi aðferðum í vinnu með heimilislausum með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Áherslan í þjónustunni er draga úr neikvæðum og hættulegum afleiðingum vímuefna fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina.
Drög að stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir