Sjóböð, snerpuviðtöl og sólskinsbros

Mannlíf

""

Sóley Kristjánsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá skóla- og frístundasviði, ólst upp í Svíþjóð og og er einn af fáum Íslendingum sem getur sett saman IKEA-skápa án þess að skipta skapi.

„Ég elska einfalt hversdagslíf, rútínu og hvetjandi félagsskap“, segir Sóley.„En það hljómar kannski ekkert voðalega spennandi miðað við mitt fyrra líf á djamminu.“

Sóley er óvenju brosmild og jákvæð kona enda stundar hún nám í jákvæðri sálfræði við HÍ og er að auki markþjálfi fyrir aðra. Hún hefur áhuga á öllu sem fær fólk til að líða vel og blómstra í starfi. Þá er hún sérfróð um svokölluð snerpusamtöl, en þau eru tíð og hnitmiðuð samtöl milli stjórnenda og starfsfólks um framþróun í starfi. Slík samtöl þykja um margt betri en eitt árlegt starfsþróunarsamtal.

Sóley segir að skemmtilegustu verkefnin sem hún sinni séu að hlúa að góðu fagumhverfi þar sem fólki líður vel, styðja stjórnendur við að innleiða snerpusamtöl og bæta móttökuferli nýrra starfsmanna.„Önnur verkefni eru líka skemmtileg, en þessi eru það sérstaklega“, segir hún og hlær.

Að lokum má geta þess að Sóley er ein þeirra kjarnakvenna sem einu sinni í viku kastar sér í ískaldan sjóinn í Nauthólsvíkinni og núllstillir sig.