Samstarfsnet um þjónustu fyrir börn og unglinga

Velferð

""

Velferðarráð hefur samþykkt að koma á fót nýrri stuðningsþjónustu fyrir börn og unglinga á vegum velferðarsviðs, svokölluðu Samstarfsneti.

Samstarfsnetinu verður ætlað að halda utan um öll stuðningsverkefni á vegum sviðsins en um 1.100 börn og fjölskyldur þeirra njóta árlega stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs. Meðal verkefna Samstarfsnetsins verður persónuleg ráðgjöf, liðveisla, tilsjón og stuðningsfjölskyldur. 

Yfir 360 börn eru með liðveislu og persónulega ráðgjöf sem felst í stuðningi til að taka meiri þátt í samfélaginu og rjúfa félagslega einangrun. Á annað hundrað fötluð börn og yfir 160 börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður dvelja hjá stuðningsfjölskyldum einu sinni í mánuði eða oftar. 

Samstarfsnetið tekur einnig við þjónustu sem lítur að foreldrafærninámskeiðum, námskeiðum fyrir börn, verkefnum eins og Stuðningurinn heim (uppeldisráðgjöf heim), Unglingasmiðjum og helgarskammtímavistun.  Meðal námskeiða sem Samstarfsnetið mun halda utan um má nefna Foreldrafærni (PMTO), Klókir krakkar og Mér líður eins og ég hugsa sem eru sérsniðin námskeið um kvíða og depurð fyrir ólíka aldurshópa. Fjörkálfar er fræðsla til foreldra og barna um það sem kveikir reiði. Lögð verður áhersla á að eiga gott samstarf við alla þá sem koma að þjónustu við börn og barnafjölskyldur í Reykjavík.

Undirbúningur að samstarfsnetinu er þegar hafinn og nær til um  190 starfsmanna í 48 stöðugildum og er lögð áhersla á að auka hlutfall fastráðinna og fagmenntaðra starfsmanna í fullu starfi. Áætlað er að tilflutningi starfsmanna verði lokið eigi síðar en í byrjun árs 2020. Mikilvægt er að tryggja þétt samstarf við skóla- og frístundasvið á undirbúningstímanum, ekki síst við frístundamiðstöðvar sem geta gegnt mikilvægu hlutverki við mótun nýrra stuðningsúrræða.

Í öðrum áfanga, sem hefst 2021, verður Samstarfsnetið útvíkkað til að ná yfir þjónustu til einstaklinga eldri en 18 ára ásamt því sem tekin verður afstaða til þess hvort úrræði, sem lúta að dvöl/vistunum barna utan heimilis, skuli tilheyra starfseminni.

Mikilvægt er að þær breytingar sem gerðar eru á þjónustunni séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað og að í forgangi sé að einfalda aðgengi foreldra að þjónustu og upplýsingum. Samhliða undirbúningi að stofnun Samstarfsnetsins, stuðningsþjónustu við börn og unglinga verða unnar tillögur að framtíðarskipulagi þjónustumiðstöðva, m.a. fjölda þeirra, húsnæðismálum og innra skipulagi.

Auglýst verður eftir framkvæmdastjóra Samstarfsnetsins, sem mun hefja störf í maí. Breytingar á stuðningsþjónustu eru hluti breytinga á skipuriti velferðarsviðs sem samþykkt var í borgaráði þann 15. nóvember sl. í tengslum við skipulagsbreytingar á Barnavernd Reykjavíkur.

Tillaga um Samstarfsnet eins og lögð fyrir borgarráð

Velferðarkaffi um þjónustu við börn og unglinga