Lyngrósin Vigdís er komin til landsins fyrir milligöngu Garðyrkjufélags Íslands og var afhent Grasagarði Reykjavíkur föstudaginn 26. apríl að Vigdísi Finnbogadóttur viðstaddri.
Lyngrósin Vigdís (Rhododendron decorum ´Vigdís´) á sér afar merka sögu. Vilhjálmur Lúðvíksson, fyrrverandi formaður Garðyrkjufélags Íslands, rakst á lyngrósina af algerri tilviljun á athafnasvæði lyngrósagarðsins í Bremen í Þýskalandi árið 2018. Á miða sem festur var við plöntuna stóð nafnið „Vigdís“.
Við nánari athugun kom í ljós að lyngrósin kemur frá lyngrósagarðinum á Milde í Noregi og var ræktuð upp af fyrrverandi forstöðumanni garðsins, Per M. Jörgensen prófessor, sem staðfesti að lyngrósin héti í höfuðið á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Jörgensen hafði ætlað að færa Vigdísi blómvönd af lyngrósinni í opinberri heimsókn hennar til Bergen árið 1992 og tilkynna henni þá yrkisnafn plöntunnar. Vegna breytinga á áætlun forsetans varð ekki af þessum fundi og hafði hún því ekki heyrt af lyngrósinni sem heitir eftir henni fyrr en Vilhjálmur rakst á plöntuna í Bremen 26 árum síðar.
Nú er lyngrósin Vigdís komin til landsins fyrir milligöngu Garðyrkjufélags Íslands og Rósaklúbbs og Sígræna klúbbs þess og var afhent Grasagarði Reykjavíkur föstudaginn 26. apríl að Vigdísi Finnbogadóttur viðstaddri.
Afhendingin hófst við aðalinngang garðsins kl. 14 í dag. Vigdís Finnbogadóttir og nafna hennar Vigdís Una og bróðir hennar Tryggvi Páll Tómasbörn gróðursettu rósin með hjálp Vilhjálms Lúðvíkssonar og Hjartar Þorbörnssonar.