Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar styður vakningu í loftslagsmálum og stendur fyrir fundum um málefnið m.a. með öflugu fólki úr grasrótinni. Fyrsti fundur verður þriðjudaginn 12. mars 2019 á Kjarvalsstöðum klukkan 20.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar ásamt Sigurborgu Ósk Haraldsdóttir, formanni skipulags- og samgönguráðs og Líf Magneudóttur formanni umhverfis- og heilbrigðisráðs, efnir til fundar þar sem loftslagsmál verða skoðuð og rædd út frá ýmsum sjónarhornum.
Oft er dregin upp dökk mynd af afleiðingum loftslagsbreytinga. Auðvelt er að missa móðinn en margir eru tilbúnir til að bretta upp ermar og takast á við vandann. Hvað getum við gert? Hvaða áhrif getur borgarskipulag haft á loftslagsmál? Hvernig tengist skipulag og hönnun heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem eru vonandi besta áætlun í heimi til að takast á við loftslagsbreytingar?
Er vakning í vændum?
Hlustum á fagfólk og grasrótina og byggjum á staðreyndum. Á fyrsta fundi mun Pétur Halldórsson hjá Ungum umhverfissinnum vera með öfluga kynningu og vekja umræðu. Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir hjá Grænni byggð, Halldór Þorgeirsson hjá Loftslagsráði og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs munu bæta við, bregðast við og taka þátt í umræðum sem fram fara á eftir.
Verið öll velkomin, kaffi á könnunni, þriðjudaginn 12. mars 2019 á Kjarvalsstöðum klukkan 20. #sjálfbærborg
Tengill