Hvatningarverðlaun velferðarsviðs fyrir árið 2018 voru veitt við hátíðlega athöfn á Hótel Hilton-Nordica í dag. Athöfnin var lokahnykkur á vel heppnuðum þekkingardegi sviðsins.
Verðlaunin hlutu að þessu sinni Mánaberg, vistheimili barna sem fær verðlaun í flokki hópa og eða starfsstaða, TINNA í flokki verkefna, Alda Róbertsdóttir, verkefnastjóri stuðningsþjónustu, í flokki einstaklinga. Og að lokum hlaut Þóroddur Þórarinsson, forstöðumaður, viðurkenningu fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála.
Flaggskip í barnavernd
Það var mat dómnefndar að Mánaberg sé eitt af flaggskipum Reykjavíkurborgar í góðu barnaverndarstarfi. Þar geta börn dvalið tímabundið ef þau eða foreldrar þeirra eiga í vanda. Sjö börn geta búið á Mánabergi samtímis auk þess sem þar er lítil íbúð þar sem foreldrar geta dvalið tímabundið með börn sín og fengið stuðning. Eitt helsta markmið vistheimilisins er að hjálpa foreldrum og börnum að líða betur saman. Á Mánabergi er líka úrræðið „Greining og ráðgjöf heim“ þar sem unnið er eftir PMTO hugmyndafræði eða foreldrafærni á heimavelli til að styrkja foreldra í sínu hlutverki.
TINNA aðstoðar einstæða foreldra
Í flokknum verkefni hlaut TINNA hvatningarverðlaunin. TINNA er verkefni í Breiðholti sem snýst um að valdefla einstæða foreldra á aldrinum 18-30 ára sem hafa notið fjárhagsaðstoðar í sex mánuði eða lengur.
Í TINNU fær fólk tækifæri til menntunar og þátttöku á vinnumarkaði í þeim tilgangi að auka möguleika á bættum efnahagslegum kjörum. Stuðlað er að bættum félagslegum tengslum foreldra og barna, aukinni virkni þeirra og þátttöku í námi, íþróttum, tómstundum og menningarstarfi. TINNA hefur nú þegar borið góðan árangur fyrir þátttakendur og dæmi eru um að fólk hafi farið í fulla vinnu, í hlutastarf, í nám eða komist í viðeigandi úrræði sem það hafði ekki tök á áður. Á árinu 2018 tóku 27 nýir þáttakendur með alls 40 börn þátt í TINNU. Verkefnisstjóri TINNU er Þuríður Sigurðardóttir félagsráðgjafi. Úrræðið hefur verið starfrækt frá 2016.
Ötul í þjónustu við fatlað fólk
Alda Róbertsdóttir hefur tileinkað sér notendamiðaða hönnun í samstarfi við fatlað fólk og hefur iðulega leyst flókin mál af hendi og ávallt með mikilli alúð og virðingu. Hún er með hjartað á réttum stað og viðhorf hennar til fatlaðs fólks bera með sér djúpstæða fagmennsku og réttindamiðaða sýn. Alda fylgir málum vel eftir og miðlar þekkingu sinni til annara starfsmanna. Hún er hvetjandi og til mikillar fyrirmyndar í starfi. Alda er starfsmaður þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis.
Að lokum fékk Þóroddur Þórarinsson viðurkenningu fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála.
Þóroddur hefur verið starfsmaður velferðarsviðs frá því að málaflokkur fatlaðs fólks færðist yfir til borgarinnar árið 2011 og hefur lengst af starfað sem forstöðumaður yfir sambýlinu Skagaseli 9. Hann hefur helgað sig starfi með fötluðu fólki og hefur undanfarin 40 ár unnið inni á heimilum fólks. Hann hefur mikla þekkingu og reynslu sem hann hefur verið duglegur að miðla til annara og tekur fólki sem leitar til hans opnum örmum. Þóroddur starfar í dag á Þjónustumiðstöð Breiðholts sem ráðgjafi og veitir forstöðumönnum í Breiðholti stuðning.
Aldrei hafa fleiri verið tilnefndir til verðlaunanna en í heildina voru 34 einstaklingar, hópar eða verkefni tilnefnd, þar af voru 15 tilnefndir í flokknum einstaklingar, sjö tilnefndir í flokknum hópar/starfsstaðir og 12 tilnefndir í flokknum verkefni.
Markmiðið með veitingu hvatningarverðlauna er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi. Rannsóknir hafa sýnt að hvetjandi starfsumhverfi stuðlar að aukinni starfsánægju starfsmanna, betri frammistöðu og þjónustu til notenda.
Valnefnd var skipuð skipuð fulltrúum velferðarráðs, skrifstofu velferðarsviðs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og BHM. Í valnefnd vegna verðlauna fyrir árið 2018 voru: Egill Þór Jónsson, Garðar Hilmarsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Anna Guðmundsdóttir.
Verkefni, starfsstaðir/hópar og einstaklingar sem fengu tilnefningu.