Á föstudag var opið hús í skammtímavistun að Hólabergi. Tilefnið var að fagna nýju og endurbættu húsnæði í starfssemi Hólabergs. „Það er rík ástæða til að brosa breitt og starfsmenn eru himinlifandi með að fá nýtt húsnæði fyrir skammtímavistun í Hólabergi. Við gætum ekki verið ánægðari með endurbæturnar og munum koma til með að geta veitt betri þjónustu til barna og ungmenna,“ segir Helga Clara Magnúsdóttir, deildarstjóri skammtímavistun Hólabergs.
Gagngerar endurbætur hafa staðið yfir í Hólabergi frá árinu 2017. Ný viðbygging hefur nú verið tekin í notkun sem er bætir um 155 m² við það sem áður var. Fjarlægja þurfti utanhússklæðningu á húsinu og klæða að nýju. Innanhús voru lagðir nýir gólfdúkar, saga þurfti niður nokkra steypta veggi og innrétta rými að nýju. Í Hólabergi er starfssemi allt árið, um 25 börn og ungmenni nota þjónustuna reglulega.
Starfsmenn eru í dag 18 en að sögn Helgu Clöru er það gefandi starf að vinna í Hólabergi en þar kemur í vistun mjög breiður hópur fatlaðra barna og ungmenna.