Reykjavíkurborg fékk hagstæðustu vexti sögunnar í skuldabréfaútboði gærdagsins.
Borgarráð samþykkti í gær tilboð að nafnvirði 2.820 milljónir króna, á ávöxtunarkröfunni 2,30%, í grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs. Mörg tilboð bárust í skuldabréfaflokkinn með ávöxtunarkröfu á bilinu 2,19% til 2,35% og var heildareftirspurn að nafnvirði 3.320 milljónir króna. Þetta eru lægstu vextir sem Reykjavíkurborg hefur fengið í útboði á löngum verðtryggðum skuldabréfum frá upphafi. Líftími skuldabréfaflokksins er í dag um 13,2 ár.
Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, segir ánægjulegt að sjá fagfjárfesta koma með ábyrg tilboð í fjármögnun borgarinnar á grænum fjárfestingum sem unnar eru samkvæmt grænum ramma borgarinnar. „Þannig sýna fagfjárfestar einfaldlega í verki samfélagslega ábyrgð. Þá eru vextirnir til marks um það að markaðurinn metur fjárhagslega stöðu borgarinnar sterka,“ segir Birgir Björn.
Tilgangur skuldabréfaútboðsins er að fjármagna græn fjárfestingarverkefni Reykjavíkurborgar í samræmi við Grænan ramma Reykjavíkurborgar. Með grænum skuldabréfum má einungis fjármagna verkefni borgarinnar sem uppfylla strangar kröfur Græna rammans. Dæmi um fjárfestingar sem falla undir Græna rammann eru gerð göngu- og hjólastíga, innleiðing á LED ljósum fyrir götulýsingu og hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 er áformað að taka lán allt að 5,5 milljörðum króna vegna framkvæmda. Þess má geta að engin lántaka hefur enn farið fram á árinu 2019. Þetta er því fyrsta útboð Reykjavíkurborgar á árinu 2019 en ákveðið var að halda lokað útboð í græna skuldabréfaflokknum þar sem öll skuldabréf verða seld á hæstu ávöxtunarkröfu sem verður samþykkt. Fjárhæðarmörk útboðsins takmarkast við 5.500 milljónir króna.
Búið er að skrá grænan skuldabréfaflokk borgarinnar á Sustainable Bond markað í Kauphöll Íslands og er stefnt að því að hefja viðskiptavakt með hann í haust. Heildarstærð flokksins fyrir útboð núna var 4.100 milljónir króna.
Græn skuldabréf Reykjavíkurborgar