Fyssa gangsett á ný

Umhverfi Menning og listir

""

Vatnslistaverkið Fyssa eftir Rúri Fannberg var gangsett á ný í Grasagarðinum í Laugardal í gær, sumardaginn fyrsta.

Útilistaverkið Fyssa var sett upp 1995 en hefur ekki virkað í sex ár vegna bilunar í dælubúnaði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt ávarp við gangsetninguna í gær. Hann sagði m.a. að nú væri þetta frábæra verk Rúríar komið umsjá Listasafns Reykjavíkur sem heldur utan um öll útilistaverk Reykjavíkurborgar en áður var verkið á forræði Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyssa táknar íslensk náttúruöfl þar sem vatnið sprengir berg í frostum og er lifandi afl í náttúrunni.  

Sem dæmi um mátt vatnsins þoldi dælubúnaðurinn í Fyssu illa miklar umhleypingar í veðri auk þess sem talsvert svell myndaðist í kringum verkið í frostum á veturnar sem skapaði hættu fyrir vegfarendur.

Því hefur verið brugðið á það ráð að hafa verkið ekki í gangi yfir veturinn. Skrúfað verður frá vatni til Fyssu á sumardaginn fyrsta og skrúfað fyrir áður en hætta verður á frosti á haustin.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Laugardalinn í gær, bæði til að sjá Fyssu flæða á ný, en einnig til að heimsækja Grasagarðinn þar sem gróður er óðum að fara af stað og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn en frítt var inn í hann í gær í tilefni af sumarkomu. Ungir sem aldnir skemmtu sér vel í garðinum en þar mátti m.a. sjá grísi og kiðlinga í fullu fjöri.