Alþjóðadagur lífbreytileika var í gær, 22. maí og að því tilefni var Dýradagurinn haldinn í fyrsta sinn á Íslandi. Til að fagna deginum gekk skrúðganga frá Laugarnesskóla og í Grasagarðinn í Laugardal þar sem haldin voru ávörp og sýnd skemmtiatriði.
Markmið göngunar er að vekja athygli á umhverfismálum og í ár er áherslan á málefnum hafsins. Dýradagurinn gefur börnum tækifæri til að læra um áhrif loftslagsbreytinga og plastmengunar á lífríki jarðar.
Úr hugmyndasmiðju Dr. Jane Goodall
Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum Jane Goodall í Taiwan og Argentínu sem kallast „Animal Parade“. Jane Goodall sjálf sýnir þessum viðburðum alltaf mikla athygli og stefnir hún á að vera viðstödd á Dýradeginum á Íslandi næsta vor.
Þema göngunnar í ár er málefni hafsins og er viðburðurinn settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með börnum og ungmennum sem m.a. felst í búninga- og grímugerð úr efnivið sem annars væri fleygt.
Skrúðganga og dagskrá
Börn í leikskólanum Hofi og Frístundarheimilunum Laugarseli og Dalheimum fóru í skrúðgönguna í nafni dýra. Þau báru dýragrímur úr efnivið sem annars væri fleygt. Þegar skrúðgangan kom í Grasagarðinn ávarpaði m.a. Sævar Helgi vísindamaður börnin og krakkarnir í leikskólanum Hofi fluttu tvö lög. Foreldrar og forráðamenn slógust í för með börnunum og eftr að formlegri dagskrá lauk fóru þau í leiki og heilsuðu upp á dýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Viðburðurinn sem var öllum opinn var liður í 50 ára afmælisdagskrá Landverndar.
Samstarfsaðilar í verkefninu eru Landvernd, Reykjavíkurborg, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Fuglavernd, Norræna húsið, Barnamenningarhátíð,
Myndlistaskóli Reykjavíkur og Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listakona.
Upplýsingar um dýradaginn