Atvinnutengt nám í grunnskóla

Velferð Skóli og frístund

""

Það var góð stemning í Tjarnarsal Ráðhússins í gær, 28. apríl, þegar nemendur í 9. og 10. bekk grunnskólum Reykjavíkur komu saman ásamt atvinnurekendum og aðstandendum verkefnisins um Atvinnutengt nám til að fagna góðum starfsvetri.

Atvinnutengt nám mætir þörfum nemenda á unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkur sem einhverra hluta vegna líður ekki vel. Verkefninu er ætlað að stuðla að vellíðan nemendanna og gefa þeim tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr fyrir utan skólastofuna.

Verkefnið styður við hugmyndina um einstaklingsmiðað nám. Það eflir sjálfstraust og áhuga til frekara náms þar sem sérstök stundatafla er útbúin fyrir hvern og einn nemanda með tilliti til atvinnuþátttökunnar. Aðalmarkmið Atvinnutengds náms er að bæta líðan nemenda og gefa þeim kost á að láta drauma sína rætast sem er aðalmarkmið nýrrar menntastefnu.

Vinnustaðir eru valdir út frá áhugasviði nemenda en á þessu skólaári eru þetta um 90 fyrirtæki eins og t.d. leikhús, margs konar verslanir, leikskólar, hárgreiðslustofur, málarar og smiðir. Sumir skólar bjóða sínum nemendum upp á Atvinnutengt nám innan skólans og þau aðstoða húsverði, á bókasafni, í heimilisfræði eða í öðrum kennslustundum.

Það var einróma álit þeirra nemenda og atvinnurekenda sem voru saman komin í Tjarnarsal að verkefnið gengi vel. Nemendur sögðu það mikinn kost að fá að kynnast ólíkum atvinnugreinum og vinnuveitendur sögðu ungmennin almennt standa sig vel. Nemendum finnst verkefnið nýtast sér vel og eru ánægð með þennan valkost. Það er Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, sem heldur utan um verkefnið fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Á viðburði í Tjarnarsal þakkaði formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, öllum fyrirtækjunum og vinnustöðunum sem taka þátt í Atvinnutengdu námi kærlega fyrir þennan mikilvæga stuðning við grunnskólanemendur í Reykjavík og sagði borgina hlakka til frekara samstarfs á komandi árum. Nemendum hrósaði Þórdís fyrir góða ástundun og áhuga á að nýta þetta tækifæri sem best.