Reykjavíkurborg varð í dag fyrst til að skrá græn skuldabréf á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf.
Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að Reykjavíkurborg varð í dag fyrst til að skrá græn skuldabréf á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf.
Skuldabréfið er verðtryggt til 30 ára og var gefið út þann 17. desember sl. eftir að 4,1 milljarður að nafnvirði var seldur í lokuðu útboði með þátttöku 15 fagfjárfesta. Fyrirhugað er að flokkurinn verði stækkaður á komandi árum og að viðskiptavakt verði tekin upp með hann.
Tilgangur með útgáfu skuldabréfsins er að fjármagna græn fjárfestingarverkefni Reykjavíkurborgar í samræmi við Grænan ramma Reykjavíkurborgar (Green Bond Framework). Einungis má fjármagna með grænum skuldabréfum borgarinnar þau verkefni sem uppfylla strangar kröfur Græna rammans. Dæmi um fjárfestingar sem gætu fallið undir Græna rammann eru gerð göngu- og hjólastíga, innleiðing á LED ljósum fyrir götulýsingu og hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.
„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Reykjavík”, sagði Dagur Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. „Markmið okkar er að styrkja sífellt stöðu okkar sem græn borg sem verður kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Við samþykktum Græna rammann sem fær hæstu einkunn samkvæmt mati CICERO (Center for International Climate Research), eða dökkgrænn (Dark Green), ásamt öllum verkefnum innan hans. Einnig er litið sérstaklega til stjórnsýslulegs fyrirkomulags sem fær einnig hæstu einkunn eða framúrskarandi (Excellent). Að auki er ég með ánægður með þann mikla áhuga sem við höfum fengið frá fjárfestum. Þetta er mjög góð byrjun á verkefninu og þeirri viðleitni okkar að verða sjálfbær borg.”
„Sjálfbærni er lykilatriði fyrir velsæld þjóða og fyrsta græna skuldabréfaútgáfa Reykjavíkurborgar er mikilvægt skref í þá átt”, sagði Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskipta- og skráninga hjá Nasdaq Iceland. „Þetta er fyrsta skráning á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf, en mikill áhugi fjárfesta á útgáfu Reykjavíkur lofar góðu fyrir uppbyggingu á honum. Það er mikill heiður að bjóða höfuðborgina okkar velkomna á markað með fyrstu skráningu græns skuldabréfs á Nasdaq Iceland.”
Fossar Markaðir höfðu umsjón með sölu bréfanna og samskipti við fjárfesta.