Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 40.sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í sjötta sinn kjörin Íþróttakarl og Íþróttakona Reykjavíkur auk þess sem að Íþróttalið ársins í Reykjavík var valið.
Íþróttakarl Reykjavíkur 2018 er kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Glímufélaginu Ármanni. Júlían tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu og varð í fjórða sæti samanlagt á HM í nóvember. Hann setti einnig Íslandsmet í réttstöðulyftu og samanlögðu á mótinu. Á EM vann hann til gullverðlauna í réttstöðulyftu. Þá setti hann auk þess Evrópumet í klassískri réttstöðulyftu á árinu.
Íþróttakona Reykjavíkur 2018 er frjálsíþróttakonan Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr Íþróttafélagi Reykjavíkur. Guðbjörg Jóna varð Evrópumeistari unglinga í 100 m hlaupi og sigraði á Ólympíuleikum ungmenna í 200 m hlaupi á árinu og sett nýtt Íslandsmet í greininni á sama móti í þremur unglingaflokkum og fullorðinsflokki. Hún vann einnig til bronsverðlauna á Evrópumeistaramóti unglinga í 200 m hlaupi og setti nýtt Íslandsmet í greininni á sama móti. Hún er í 2.sæti á Evrópulista unglinga og 12.sæti á heimlista unglinga í 200 m hlaupi.
Íþróttalið Reykjavíkur 2018 er lið Fram í handknattleik kvenna sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu.
Tólf einstaklingar og fjórtán lið frá fjórtán félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2018 í dag. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.
Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2018:
- Fram - Íslands,- og bikarmeistarar kvenna í handknattleik
- Fylkir - Íslandsmeistarar í kumite
- GR - Íslandsmeistarar kvennaliða í golfi
- ÍR - bikarmeistarar í frjálsíþróttum
- ÍR - Íslands- og bikarmeistarar í karlaflokki í keilu
- Júdófélag Reykjavíkur - bikarmeistarar í sveitakeppni karla
- Keilufélag Reykjavíkur - Íslands,- og bikarmeistarar kvenna í keilu
- KR - Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
- KR - Íslandsmeistarar í liðakeppni kvenna í borðtennis
- Skylmingafélag Reykjavíkur - Íslandsmeistarar liðakeppni karla
- TBR - Íslandsmeistarar í liðakeppni í badminton
- Valur - Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla
- Víkingur - Íslands- og bikarmeistarar í borðtennis
- Þórshamar - Íslandsmeistarar karla í kata
Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2018:
- Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
- Ásgeir Sigurgeirsson, Skotfélagi Reykjavíkur
- Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
- Birkir Már Sævarsson, knattspyrnudeild Vals
- Freydís Halla Einarsdóttir, skíðadeild Ármanns
- Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
- Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautardeild Ægis
- Guðni Valur Guðnason, frjálsíþróttadeild ÍR
- Haraldur Franklín Magnús, Golfklúbbi Reykjavíkur
- Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingadeild Ármanns
- Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur
- Sveinbjörn Iura, júdódeild Ármanns
Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin í dag.