FC-Sækó, geðveikur fótbolti hefur hlotið evrópsku gull-grasrótarverðlaunin 2018 hjá UFEA, Knattspyrnusambandi Evrópu. Viðurkenningin er fyrir áhrifamikið starf til að bæta geðheilsu fólks í gegnum fótboltaleik.
Félagið var stofnað árið 2011 með það að markmiði að auka virkni fólks með geðraskanir og gefa því tækifæri til að iðka knattspyrnu, en einnig til að draga úr fordómum. Knattspyrnuiðkunin á þó fyrst og fremst að efla andlega og líkamlega heilsu fólks með líkamsrækt, áreynslu og skemmtun. Geðveikur fótbolti er samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans en FC Sækó er sjálfstætt íþróttafélag.
Vegur FC-Sækó hefur vaxið ár frá ári og æ fleiri taka þátt í geðveikum fótbolta. Að sögn Bergþórs Grétar Böðvarssonar, aðalþjálfara FC-Sækó og Reykvíkingi ársins, nær fólk undraverðum bata í gegnum boltann og það er ósk hans að félagið fái fulla aðild að KSÍ og betri æfingaaðstöðu. Hann vill opna félagið enn frekar fyrir félagsmönnum og hann segir einnig bráðvanta góða æfingaaðstöðu seinni hluta dags fyrir þá félagsmenn sem eru á vinnumarkaði.
Fulltrúar UFEA komu í sumar og fylgdust með starfi FC-Sækó. 11. september flaug Bergþór Grétar Böðvarsson til Genfar, ásamt fulltrúa frá KSÍ, og veitti verðlaununum viðtöku. Hann segir viðurkenninguna lyftistöng fyrir félagið, það bæti stöðu þess innan KSÍ og opni möguleika fyrir erlendum styrkjum til geðveiks fótbolta. Bergþór tók við viðurkenningarskjali og fékk auk þess 50 fótbolta að gjöf frá UFEA.
Auk FC-Sækó, sem var besta verkefnið fékk HJK – Helsinki verðlaun sem besti klúbburinn en hann er sérstaklega fyrir ungmenni sem eiga erfitt náms- og félagslega í skóla. Parm Gill fékk verðlaun sem besti leiðtoginn en hún hefur náð árangri með fótbolta fyrir konur og stúlkur hverfi innflytjenda í Gravesend í Englandi.
Umfjöllun UEFA um gullverðlaun FC-Sækó ásamt myndbandi af geðveikum fótbolta