Breytt starfsemi fyrir stuðningsþjónustu og þjónustu við fatlað fólk

Velferð

""

Borgarstjórn samþykkti í gær tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um nýja starfsemi fyrir stuðningsþjónustu í ljósi nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarsviði að hefja undirbúning að nýrri starfsemi sem haldi utan um alla stuðningsþjónustu á vegum sviðsins og taki mið af þeirri auknu þjónustuþörf sem leiðir af breytingum á  lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Einnig verði skoðað hvort stuðningsþjónusta á grundvelli barnaverndarlaga eigi að tilheyra nýrri starfsemi. Tillögur að útfærslu nýrrar starfseiningar ásamt kostnaðarmati verði lagðar fyrir velferðarráð og borgarráð eigi síðar en 1. desember á þessu ári.

Nauðsynlegt er að þróa þjónustuna enn frekar til að fara að nýjum lögum og verður haft náið samráð við hagsmunasamtök notenda, framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva og Barnavernd Reykjavíkur, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila við undirbúning að nýrri starfsemi.

Haft verður samráð við alla sem að þjónustunni koma við mótun starfseminnar og allar breytingar í kjölfarið verða vel kynntar. Horft verður til reynslu borga í nágrannalöndunum af þjónustu í þessum málaflokkum og tekið mið af skipulagi starfseminnar þar.