Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Laugardal fagnar 25 ára afmæli með opnun nýs fallturns og stórtónleikum Stuðmanna, Sölku Sólar og JóaPé og Króla um helgina.
Nýr fallturn í Fjölskyldugarðinum verður opnaður formlega á laugardaginn 4. ágúst kl 11 að viðstöddum borgarstjóra. Nýi turninn er ríflega 20 metrar á hæð og kemur í stað eldri turns sem var 15 metra hár. Það segir þó ekki alla söguna því fall og færsla sæta í þeim nýja er 16,5 metrar en var einungis 12 metrar í þeim gamla. Þetta er raunar þriðji fallturninn í sögu garðsins.
Nýi turninn tekur 12 farþega en sá gamli tók 10. Rúsínan í pylsuendanum er að nýi turninn snýst í hringi og því fá farþegar að njóta 360 gráða útsýnis í ferðum sínum – í rólegheitum á uppleið, en talsvert hraðar á niðurleið en þá kynnast farþegar hröðun upp á 2,5 g.
Loks er fallturninn búinn ríflega 3000 forritanlegum LED RGB ljósum sem eru glæsileg að sjá jafnvel í dagsbirtu.
Í tilefni af 25 ára afmælinu verða haldnir stórtónleikar í garðinum á laugardaginn. Þá munu Stuðmenn, Salka Sól og JóiP og Króli stíga á stokk í Fjölskyldugarðinum. Tónleikarnir hefjast kl. 15 og standa til kl. 17. Hefðbundinn aðgangseyrir verður í garðinn og árskort gilda.
Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega til að forðast biðraðir enda er ágæt veðurspá fyrir laugardaginn.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er opinn alla helgina frá 10 – 18.