Um 90 myndir bárust í kvikmyndasamkeppni grunnskólanna í Reykjavík, en keppt er í fjórum flokkum yngri og eldri barna; flokki stuttmynda, hreyfimynda, heimildamynda og tónlistarmyndbanda.
Fjöldi myndanna vitnar um þá miklu grósku sem er í kvikmyndagerð grunnskólabarna en Mixtúra margmiðlunarver skóla- og frístundasviðs er þekkingarmiðja í því starfi og stendur fyrir námskeiðum fyrir kennara og börn. Skapandi kvikmyndagerð er stunduð af miklum móð inn í grunnskólunum og félags- og frístundamiðstöðvum undir leiðsögn frábærs starfsfólks með lifandi áhuga á þessu listformi.
Verðlaunamyndir úr hverjum flokki voru sýndar á kvikmyndahátíð í Bíó Paradís í dag fyrir troðfullum sal. Að því loknu fór fram verðlaunaafhending þar sem stoltir leikstjórar, klipparar, sviðsmynda- og búningahönnuðir, teiknarar og leikarar stigu á stokk.
Sigurvegarar í flokki leikinna stuttmynda komu annars vegar úr Árbæjarskóla þar sem eldri nemendur fóru á kostum með Kennaragríni, sem sett var saman í tilefni af 50 ára afmæli skólans. Heimildarmynd um Árbæjarskóla fékk jafnframt verðlaun. Í yngri flokki leikinna stuttmynda komu verðlaunin í hlut nemenda í Rimaskóla fyrir myndina Lykkju.
Í flokki heimildamynda eldri nemenda hreppti Birgitta Sól Helgadóttir í Réttarholtsskóla fyrstu verðlaun fyrir mynd sína Hestar. Grandaskóli hreppti öll verðlaunin í flokki hreyfimynda yngri nemenda en Tómas Vilhelm Hafliðason nemandi í Háteigsskóli fékk verðlaun fyrir hreyfimynd í flokki eldri nemenda. Fyrstu verðlaun fyrir tónlistarmyndbörn komu annars vegar í hlut yngri nemenda í Dalskóla og hins vegar til eldri nemenda í Laugarlækjarskóla.
Veg og vanda af Töku 2017 hafði Erla Stefánsdóttir forstöðumaður Mixtúru. Kynnir á hátíðinni var Saga Garðarsdóttir leikkona.