Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi, stóðu nýlega fyrir hreinsunarátaki í hverfinu sínu og tóku um 30 Korpúlfar til hendinni og söfnuðu um 250 kg af rusli víða um hverfið.
Gönguhópar Korpúlfa þekkja hverfið vel og vissu því hvar í hverfinu rusl væri helst að finna og var því safnað á nokkrar stöðvar þar sem því var safnað á kerru sem Reykjavíkurborg lagði til.
Félagið tók upp þennan sið vorið 2013 og er hann nú fastur liður í starfseminni. Baldur Magnússon segir að Korpúlfar láti sér annt um hverfið sitt og allir hafi mætt til að láta gott af sér leiða, eiga saman stund í góðum félagsskap og fagna sumrinu saman.
Að loknu góðu dagsverki var boðið upp á grillaðar pylsur sem grillstjóri Korpúlfa í Borgum galdraði fram.
Baldur gerir ráð fyrir að annar hreinsunardagur verði í kringum Grafarvogsdaginn, en einnig eru gönguhópar Korpúlfa á ferðinni á mánudögum og miðvikudögum og þeir eru gjarnan með poka og tínur með sér. „ Korpúlfar vita alveg hvar ruslið liggur og haga ferðum sínum um gönguleiðirnar eftir því,” segir hann.