Háteigsskóli, Rimaskóli og Ölduselsskóli sigurvegarar á jólaskákmóti grunnskóla

Skóli og frístund

""

39 skáksveitir kepptu á jólaskákmótinu í þremur aldursflokkum. 

Jólaskákmót grunnskóla Reykjavíkurborgar var haldið um síðustu helgi í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur, en mótið er samstarfsverkefni félagsins og skóla- og frístundasviðs. Alls tefldu 39 skáksveitir í mótinu sem var þrískipt að þessu sinni; 1-3.bekkur, 4-7.bekkur og 8-10.bekkur. Í öllum keppnisflokkum voru tefldar 6 umferðir með umhugsunartímanum 5 mínútur fyrir hvern keppanda auk þess sem 3 sekúndur bættust við eftir hvern leik (5+3).

1.-3.bekkur

Klukkan hafði varla slegið níu að morgni þegar í skáksalinn streymdu ung börn og forráðamenn þeirra. Börnin sem öll voru í 1.-3.bekk mynduðu 10 skáksveitir frá sex grunnskólum höfuðborgarinnar, þar af voru tvær stúlknasveitir. Fljótlega varð ljóst að tvær skáksveitir skáru sig úr hópnum hvað styrkleika varðar, sveitir Háteigsskóla og Langholtsskóla. Næstu sex skáksveitir voru nokkuð jafnar að styrkleika og reyttu vinninga hver af annarri.

Að loknum umferðunum sex stóð sveit Háteigsskóla uppi sem sigurvegari með 20 vinninga af 24 mögulegum. Langholtsskóli varð í 2.sæti með 19 vinninga, aðeins einum vinningi á eftir sigurvegurunum. Rimaskóli tryggði sér bronsverðlaun með 13,5 vinning. Stúlknasveit Rimaskóla fékk einnig 13,5 vinning og varð því fremst stúlknasveita. Rimaskóli og Langholtsskóli  sendu einnig stúlknasveitir til leiks og eru aðrir skólar hvattir til þess að fylgja fordæmi þeirra að ári.

4.-7.bekkur

Í humátt á eftir yngsta hópnum komu börnin í 4.-7.bekk. Alls mættu 22 skáksveitir til leiks, þar af voru þrjár stúlknasveitir. Í þessum keppnisflokki hafði Rimaskóli töluverða yfirburði. A-sveit skólans vann mótið næsta örugglega með 20 vinninga af 24 mögulegum. Stúlknasveit Rimaskóla lenti í 2.sæti með 16 vinninga, en sveitin sú er ein sterkasta stúlknasveit sem keppt hefur í mótinu um langt skeið. 

B-sveit Rimaskóla hreppti bronsverðlaun með 15,5 vinning eftir 2-2 jafntefli gegn A-sveit sama skóla í lokaumferðinni þar sem jafntefli v

8.-10.bekkur

Sex skáksveitir frá fimm grunnskólum öttu kappi í elsta aldursflokknum og tefldu þær allar innbyrðis. Ölduselsskóli sýndi mátt sinn með öflugri taflmennsku auk þess sem skólinn átti tvær skáksveitir af sex. A-sveit skólans vann mótið örugglega með 19 vinninga af 20 mögulegum, aðeins Laugalækjarskóli náði að vinna skák gegn þeim. Laugalækjarskóli varð í 2.sæti með 13,5 vinning og í 3.sæti varð B-sveit Ölduselsskóla með 9 vinninga.