Vesturbæingar sóttu fund með borgarstjóra

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð til íbúafundar með Vesturbæingum í Hagaskóla sl. fimmtudag og mættu um 70 manns til fundarins.

Borgarstjóri fór í kynningu sinni yfir uppbyggingu og málefni Vesturbæjar. Hann lýsti mikilli ánægju með dvölina í Vesturbænum en í vikubyrjun færði hann skrifstofu sína tímabundið í borgarhlutann. Dagur fór í kynningu sinni vítt yfir lífið í hverfinu, starfssemi borgarinnar og áherslur, sem og skipulagsmál og uppbyggingu í hverfinu. Hér má skoða glærukynningu Dags.

Marlene Dietrich spratt ljóslifandi fram í ræðustóli þegar Sigríður Hannesdóttir fulltrúi íbúa rifjaði upp fjölmargt frá fyrri tíð í Vesturbænum, en Sigríður upplifði meðal annars heimsókn söngkonunnar.

Fulltrúar ungmennaráðs Vesturbæjar þær Erla Sverrisdóttir, Ásta Rún Ingvadóttir, Karolína Einarsdóttir og Arndís María Ólafsdóttir fóru yfir hlutverk ungmennaráðs og vöktu þær fundargesti til vitundar um vaxandi kvíða og þunglyndi meðal ungmenna. Hvatning þeirra til fullorðinna var að draga úr þeirri pressu sem sett er á ungt fólk.

Hugmyndir um þróun KR-svæðisins voru kynntar. Baldur Stefánsson formaður mannvirkjanefndar KR fór í stuttu máli yfir stöðu KR og Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag varpaði upp myndum af því hvernig svæðið gæti mögulega litið út.  Skýrt var tekið fram hér væru bara hugmyndir til umræðu en ekki ákvarðanir. 

Nokkrir tóku til máls þegar opnað var fyrir almennar umræður og fyrirspurnir. Gerð er nánari grein fyrir því í minnispunktum frá fundinum sem Hörður Heiðar Guðbjörnsson, verkefnastjóri í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða tók saman. 

Fundarstjóri var Guðrún Kaldal framkvæmdastjóri Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar. 

Ítarefni: