Velkomnir heim!

Íþróttir og útivist Mannlíf

""
Íslenska landsliðinu í knattspyrnu var fagnað gífurlega í miðbæ Reykjavíkur í kvöld. Landsliðið kom í opinni rútu að Skólavörðustíg þar sem mikill fjöldi fólks var samankominn til þess að taka á móti þeim. Viðstaddi fögnuðu gífurlega þegar rútan kom akandi og kölluðu Áfram Ísland.
Rútan hélt ferð sinni áfram áleiðis að Arnarhóli og var löng halarófa niður Skólavörðustíginn á eftir þeim. Hópur slagverkshljómlistarmanna fóru fremstir í flokki með dynjandi trommutakti, mannhafið fylgdi á eftir og ýmist klappaði eða söng liðinu til heiðurs.
Þegar á Arnarhól kom upphófust mikil fagnaðarlæti þegar mörg þúsund manns fögnuðu liðinu. Allir tóku undir þegar sungið var lagið "Heimkoma" svo undir tók í Esjunni. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, flutti ræðu þar sem hann þakkaði landsliðinu fyrir frábæra frammistöðu á Evrópumeistaramótinu.  Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari steig á svið og sagðist snortinn af móttökum landsmanna "Stuðningur ykkar er ótrúlegur" sagði Lagerbäck.
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, færði landmönnum þakkir fyrir stuðninginn. "Þetta er ótrúlegt. Þetta hefur verið heiður. Það hefur verið frábært að taka þátt í þessu og þessi stuðningur hér að heiman er ólýsanlegur. Frá strákunum og staffinu viljum við segja takk." Því næst kallaði hann á liðsmenn Tólfunnar og tóku allir hið heimsfræga víkingaklapp.
Að lokinni athöfn héldu borgarbúar heim á leið og miðborgin iðaði af lífi í góða veðrinu.