Umhverfissýningin SAMAN GEGN SÓUN verður haldin núna um helgina í Perlunni í Öskjuhlíð. Opið er á föstudag frá kl. 14 -18 og á laugardag frá kl. 12 - 17.30. Aðgangur er ókeypis og hér gefst þeim sem vilja kynna sér flokkun tækifæri að sjá lausnir og fá hugmyndir fyrir heimilin.
Sýningin verður einstaklega fjölbreytt og áhugaverð fyrir alla fjölskylduna, að sögn sýningahaldara. Hægt verður að taka þátt í ratleik, læra allt um flokkun sem mun vaxa hjá almenningi í framtíðinni, þiggja ís og fá fríar barna- og fullorðinsbækur á laugardeginum og skoða risavaxinn trjátætara.
Þjónusta við flokkun plasts og djúpgámar
Reykjavíkurborg tekur þátt í sýningunni og hafa starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs sem og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar undirbúið þátt borgarinnar. Aukin þjónustu við skil á plasti verður kynnt en Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á Íslandi sem hirðir plast íbúa sérstaklega. Dregnar verða fram staðreyndir um plast og gildi þess að flokka það frá öðrum úrgangi. Hver einstaklingur skilur árlega eftir sig um 34 kg af plasti til urðunar. Bás borgarinnar er sköpunarverk nema við Listaháskóla Íslands og er hann gerður úr umbúðaplasti.
Einnig verður kynnt ný lausn á hirðu frá heimilum með djúpgámum en búið er að gera ráð fyrir þeim á nokkrum skipulagsáætlunum í borginni, t.d. í Vesturbugt, Hlíðarenda og Vogabyggðinni. Fyrir utan Perluna verður hirðubíll sorphirðunnar til sýnis sem og nýr djúpgámur.