Á morgun, mánudaginn 14. mars, verður unnið við breytingar á umferðarljósum á tveimur gatnamótum á Snorrabraut, annars vegar við Flókagötu og hins vegar við Egilsgötu. Af þessum sökum verða ljósin gerð óvirk í tvo daga – mánudag og þriðjudag.
Slökkt verður á ljósunum eftir kl. 9.00 á mánudagsmorgni, eftir að þungi morgunumferðar er liðinn hjá. Gatnamótin verða opin þó ljósin séu óvirk, en vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát og virða hraðatakmarkanir.
Forgangsleiðir neyðarbíla
Breytingarnar eru hluti af stýringu umferðarljósa við forgangsakstur slökkviliðs og sjúkraflutningabíla, auk strætisvagna. Forgangur neyðarbíla felst í því að hægt er úr bílunum að ræsa á sérstakt umferðarljósaprogram eða græna bylgju á ákveðum forgangsgötum sem þeir ætla að aka og er Snorrabrautin ein þeirra. Bílstjórar strætó munu upp að vissu marki geta lengt tímann sem grænu ljósin loga í þeirra akstursstefnu þegar þeir nálgast gatnamót.
Til að gera þessa forgangsstýringu mögulega þarf að endurnýja búnað á nokkrum gatnamótum og uppfæra hugbúnað. Gerður var samningur við Siemens til að útfæra lausnina með forgangskerfi STREAM og fellur hann vel að stjórnbúnaði umferðarljósa Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar sem er einnig frá Siemens.
Samstarfsaðilar að þessu verkefni eru Reykjavíkurborg, Vegagerðin, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Strætó, auk þess sem lögreglan getur tengst búnaði. Vinnustofan Þverá sér um hönnun og aðlögun hugbúnaðar, en umferðarljósadeild Reykjavíkurborgar sér um framkvæmd.
Gatnamót sem tengd verða búnaði fyrst um sinn eru:
- Hringbraut-Snorrabraut
- Bústaðavegur-Flugvallarvegur
- Bústaðavegur-Hringbraut
- Snorrabraut-Egilsgata-Flókagata
- Snorrabraut-Bergþórugata-Grettisgata
- Snorrabraut-Laugavegur-Hverfisgata
Gert er ráð fyrir að búnaður verði prufukeyrður í orðsins fyllstu merkingu fyrri hluta aprílmánaðar.