„Takk fyrir að leita eftir okkar hugmyndum“

Skipulagsmál

""
Nemendur úr skólum í Árbæ, Breiðholti, Háaleiti-Bústaðum og Hlíðum sem unnu í Skapandi samráði fyrir hverfisskipulag Reykjavíkurborgar eiga stóran þátt í sýningunni sem nú stendur yfir í Ráðhúsinu. 
Nemendur í Fossvogsskóla fjölmenntu á opnun sýningarinnar um Skapandi samráð sem sett hefur verið upp  í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur um framtíðarsýn fjögurra borgarhluta.


Þórhildur Sif Blöndal og Sigurður Páll Matthíasson nemendur í 6. bekk voru stolt af þessari vinnu og tóku á móti viðurkenningarskjali frá borgarstjóra fyrir hönd hópsins. 


„Þetta var bæði fræðandi og skemmtileg vinna,“ segir Sigurður og að nemendum hafi verið skipt upp í hópa til að gera líkan af Fossvogi og koma með hugmyndir um framtíðarmótun hverfisins. Foreldrar fengu svo tækifæri til að koma, skoða og bæta við góðum hugmyndum.


„Fossvogurinn er flottur en við sáum að það má bæta alls konar hlutum við,“ segir Þórhildur Sif og þau nefna t.d. sundlaug, ísbúð og kaffihús og að gaman verði að vinna áfram að hugmyndum um framtíðarsýn þessa hverfis.


Þau tóku undir að þeim þætti jafnvel vænna um hverfið en áður eftir að hafa unnið að þessu verkefni með starfsfólki Reykjavíkurborgar og öðrum sérfræðingum. Þau telja að þessi vinna hafi breytti hugsun þeirra og hjálpað þeim að tjá hugmyndir sínar um skipulag og borgarhönnun.


„Takk fyrir að leyfa okkur að vera með og að leita eftir okkar hugmyndum,“ sagði Sigurður að lokum.