Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hefur verið til umræðu undanfarið. Hér eru nokkrir þættir til að varpa ljósi á ýmsar staðreyndir í málinu.
Í ljósi þeirra umræðna sem átt hafa sér stað undanfarið í fjölmiðlum um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar er rétt að benda á nokkur atriði sem geta varpað ljósi á ýmsar staðreyndir í málinu. Því skal haldið til haga að þó að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni, þá hefur það ávallt verið stefna Reykjavíkurborgar að finna aðra staðsetningu fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu í stað hans. Það er markmið Reykjavíkurborgar að skapa þétta, aðlaðandi, ómengaða og líflega höfuðborg enda er stefna borgarinnar í skipulagsmálum mjög í takt við það sem gengur og gerist í öðrum vestrænum borgum og þó víðar væri leitað. Það eru sameiginlegir hagsmunir borgarinnar og landsbyggðar að hafa sterka höfuðborg.
Í skýrslu stýrihóps undir forystu Rögnu Árnadóttur kemur fram að Hvassahraun á mótum Hafnarfjarðar og Voga (ekki Gálgahraun eins og nefnt hefur verið í fjölmiðlum) er talinn sá flugvallarkostur á höfuðborgarsvæðinu sem hefur mesta þróunarmöguleika til framtíðar, borið saman við aðra flugvallarkosti (þar á meðal Vatnsmýri með tveimur flugbrautum í breyttri mynd). Taldi stýrihópurinn, í samræmi við samkomulag aðilanna, rökrétt að kanna fýsileika þess að þróa nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Reykjavíkurborg hefur lýst yfir vilja til að skoða þennan kost frekar í samvinnu við ríkið.
Skýrsla Hagfræðistofnunar
Í skýrslu stýrihópsins er vísað í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem metinn er „kostnaður og ábati af því að færa allt innanlandsflug úr Vatnsmýri til nýs alhliða innanlandsflugvallar í Hvassahrauni sem hefði þróunar- og vaxtarmöguleika. Völlurinn tæki við hluta af millilandaflugi eða því öllu.” Niðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar „er sú að ábati flugfarþega (innanlands- og millilandafarþega) vegna breyttrar staðsetningar flugvalla sé á bilinu 29-50 milljarðar króna, núvirt til 50 ára á verðlagi ársins 2015, að teknu tilliti til næmnigreininga. Hér er miðað við 5% raunvexti í núvirðingu.“ Þar segir jafnframt: „Ábati af uppbyggingu Vatnsmýrar er metinn á bilinu 52-73 milljarðar króna. Þar af vegur ábati í ferðakostnaði höfuðborgarbúa þyngst eða um 46 milljarðar króna. Þá er landvirði Vatnsmýrar umfram úthverfi metið u.þ.b. það sama og ábati tengdur ferðakostnaði höfuðborgarbúa vegna breytts byggðarmynsturs, eða um 49 milljarðar króna.“ Ekki má heldur gleyma þeim umhverfislega ávinningi sem verður af minni ferðaþörf borgarbúa vegna uppbyggingar í Vatnsmýrinni. Í skýrslunni kemur jafnframt fram: „Íbúar landsbyggðarinnar í millilandaflugi, þ.e. þeir sem ekki nota innanlandsflug á leið sinni til Reykjavíkur, hljóta 2-3 milljarða króna ábata af sameiningu innanlands- og millilandaflugvallar.“
Þær rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar benda því flestar til þess að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Icelandair hefur þegar tekið sig til og hafið tilraunaflug yfir Hvassahrauni enda má leiða að því líkum að það felist gífurleg tækifæri í því að geta samþætt innanlands- og millilandaflug á sama stað.
Sjúkraflugið
Þorri landsmanna er líklega sammála um mikilvægi þess að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn en ekki eru allir sammála um að lausnin á því máli felist í því að flugvöllur sé staðsettur í miðborg höfuðborgarinnar. Af orðalagi þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýrinni mætti ráða að miðstöð sjúkraflugs sé í Reykjavík. Miðstöð sjúkraflugs er hins vegar á Akureyri og hefur verið í mörg ár.
Sjúkraflug getur reynst mikilvæg flutningsleið með sjúklinga frá landsbyggðinni en benda má á að það er aðeins lítill hluti þjóðarinnar sem getur nýtt sér þá þjónustu miðað við staðsetningu flugvalla og þá samninga sem liggja frammi um sjúkraflug. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Sjúkraflug á Íslandi” frá ágúst 2013 kemur fram að engir samningar hafi verið í gildi um almennt sjúkraflug á Vestur‐ og Suðurlandi frá árinu 2005. Þar hefur sjúkraflutningum að mestu verið sinnt með sjúkrabílum. Frá árinu 2010 hefur Mýflug hf. annast almennt sjúkraflug hér á landi. Að auki annast Landhelgisgæsla Íslands brýna sjúkraflutninga um land allt með þyrlum, einkum ef sjúkrabílum eða flugvélum verður ekki komið við.
Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun Innanríkisráðuneyti á að það þurfi að skoða með formlegum hætti hvort aðkoma Landhelgisgæslu Íslands að almennu sjúkraflugi á Íslandi er raunhæfur og framkvæmanlegur kostur. Þar segir jafnframt: „Enn fremur gæti flutningur deildarinnar [flugdeildar Landhelgisgæslunnar] frá Reykjavíkurflugvelli haft áhrif á áralanga umræðu um staðsetningu flugvallarins. Þótt Landhelgisgæslan hefði aðeins eina þyrlu á Akureyri þyrftu aðrar þyrlur hennar ekki endilega að vera á Reykjavíkurflugvelli. Þær gætu t.d. verið í Keflavík en upplýsingar um sjóbjörgun undanfarin ár benda til að stór hluti hennar eigi sér stað á suðvesturhorni landsins. Það stytti flugtíma á þetta svæði að færa þyrlurnar til Keflavíkur.“
Í skýrslu Rögnunefndarinnar kemur fram að fyrirliggjandi gögn benda til að flugtími í innanlandsflugi aukist að jafnaði um rúma mínútu ef lent er í Hvassahrauni í stað Vatnsmýrar. Árin 2012-2014 tók sjúkraflutningur í forgangsflokki F1 (vegna bráðrar lífsógnar) frá því að beiðni um sjúkraflug berst og þar til sjúklingur er kominn á LSH að meðaltali 157-158 mínútur. Flutningur af flugvelli á LSH var um 3-4% af heildartímanum. Sá tími sem líður frá atviki þar til viðbragðsaðili óskar eftir sjúkraflugi er þá ótalinn. Einnig má benda á að sjúkrabílar keyra almennt ekki með bláum ljósum af flugvellinum á spítalann m.a. vegna þess að þeir eru svo vel búnir sérfræðingum, tækjum og lyfjum.
Búast má við að tími sjúkraflutnings með sjúkraflugi lengist um 8,5-12,5 mínútur vegna lengri flugtíma (1 mín) og aksturstíma (7,5-11,5 mín) ef flugvöllur er staðsettur í Hvassahrauni. Til samanburðar þá lengdust útköll á Vestmannaeyjasvæði umtalsvert meira (að meðaltali 24 mínútur) eftir að aðsetur sjúkraflugvélar svæðisins var flutt frá Vestmannaeyjum til Akureyrar eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni er jafnframt tekið fram að ljóst sé að þessi munur geti í einhverjum tilvikum skipt sköpum en að Velferðarráðuneyti telji þó að öryggi sjúklinga sé ekki ógnað þrátt fyrir lengri útkallstíma. Flest bendir því til þess að öryggi sjúkraflutninga væri tryggt þó að flugvöllurinn væri staðsettur í Hvassahrauni frekar en í Vatnsmýrinni.
Tenglar