Árangur fyrirtækja var til umræðu á málþingi um loftslagsmarkmið fyrirtækja, sem haldið var í Hörpu miðvikudaginn 7. september kl. 8.30 – 10.00. Það var Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð sem stóð fyrir málþinginu í samvinnu við Reykjavíkurborg. Fundarstjóri var Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og var fundurinn vel sóttur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, flutti inngangsorð málþingsins. Hann sagði frá þeim metnaði sem fælist í verkefninu fyrir fyrirtæki og borg. Reykjavíkurborg vill bæði ná markmiðum í eigin rekstri og hvetja fyrirtæki í borginni til ábyrgðar. Nefna má að allir vinnustaðir Reykjavíkurborgar munu hefja þátttöku í Grænum skrefum í starfsemi Reykjavíkurborgar fyrir áramót og borgin verður kolefnishlutlaus árið 2040. Helsta áskorun borgarinnar er í samgöngum og úrgangsmálum. Efla þarf almenningssamgönur, rafvæða höfnina og snjallvæða borgina. Borgarstjóri nefndi einnig þéttingu byggðar sem felur í sér styttri vegalendir.
104 fyrirtæki ákváðu að leggja upp í þessa vegferð með yfirlýsingu um árangur í loftslagsmálum, en skrifað var undir hana fyrir tæpu ári síðan. Fulltrúar fyrirtækja og stofnana lýstu aðferðum og árangri. Þau voru Svavar Svavarsson, HB Granda,Erla Jóna Einarsdóttir, Ölgerðinni, Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, Hörpu, Marta Rós Karlsdóttir, ON, Erna Eiríksdóttir, Eimskip, Hulda Steingrímsdóttir, Landspítalanum, Hrönn Hrafnsdóttir, Reykjavíkurborg, Hólmfríður Sigðurðardóttir, Orkuveita Reykavíkur, Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Össur, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, ÁTVR, Ragnheiður Ólafsdóttir, Landsvirkjun.
Fyrir umhverfið og heilsuna
Í máli þeirra kom fram hvað margt getur gerst ef stór og smá fyrirtæki taka sig saman og hvað það getur haft góð áhrif á samfélagið og atvinnulífið. Þau nefndu m.a. endurvinnslu, kolefnisjöfnun, fræðslu og samgöngusamninga.
Einnig að mikilvægt væri að geta upplýst neytendur um vistspor vöru, boðið vatn í könnum á fundum í stað þess að vera með vatnsflöskur. Skipaflotinn og flutningar voru nefnd til sögunnar en þar er hægt að ná stórum árangri. Upplýsingar á netinu eru mikilvægar og að upplýsa allt starfsfólk í hverju fyrirtæki um mikilvægi þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr myndun úrgangs.
Í könnunum hefur komið fram að fólk og fyrirtæki vilja ekki bara nota sparnað sem aðaldriffjöður í þessum málaflokki heldur heilsu og umhverfi.