Metnaðarfull og framsækin loftslagsstefna

Umhverfi Mannlíf

""
Markmið loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar, sem var samþykkt í borgarráði í dag 30. júní, eru bæði metnaðarfull og framsækin. Stefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og fjölbreytt aðgerðaáætlun til ársins 2020 er tilbúin. 
 Ný markmið um losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík og í rekstri Reykjavíkurborgar lúta að því að nettólosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík verði engin, það er að borgin verði kolefnishlutlaus árið 2040.
 
Allt undir, rekstur, heimili og atvinnulíf

Stefnan er í tveimur hlutum, annars vegar er um að ræða endurskoðun á stefnu borgarinnar er varða íbúa og atvinnulíf og hins vegar er sett fram stefna sem lýtur að rekstri Reykjavíkurborgar. Báðum hlutum stefnunnar fylgir aðgerðarlisti til ársins 2020 og gert er ráð fyrir að aðgerðirnar verði endurskoðaðar á 5 ára fresti í anda Parísarsamkomulagsins. Árangur verður mældur reglulega miðað við stöðuna árið 2015.
 
Margþættar aðgerðir í loftslagssmálum

Aðgerðir Reykjavíkurborgar eru margþættar. Áfram verður unnið að því að draga úr losun en áhersla verður einnig lögð á kolefnisbindingu. Almenningssamgöngur og bættir hjólastígar eru hluti af aðgerðunum í samræmi við Aðalskipulag en einnig verður hvatt til rafvæddra samgangna með ýmsum hætti. Til viðbótar eru ýmsar aðgerðir til að draga úr þörf á ferðum og flutningi vara og matvæla, s.s áhersla á rafræna þjónustu og þjónustu borgarinnar í nærbyggð, heildstæða matarstefnu til að efla staðbundna matarmenningu og áfram verður lögð áhersla á þéttingu byggðar í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur.

Samstarfi við Festu og atvinnulíf verður haldið áfram, verkefni gegn matarsóun verður sett af stað, svo og heildstæð matarstefna m.a. til að efla staðbundna matarmenningu. Lögð er áhersla á byggingu gasgerðarstöðvar og að draga úr myndun úrgangs. Samhliða eru settar fram aðgerðir sem lúta  að rekstri Reykjavíkurborgar, m.a. rekstur bílaflotans, vinnustaða borgarinnar, að draga úr myndun úrgangs og efla skráningu upplýsinga. Sjá Loftslagsstefna Reykjavíkur
 
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir áfangann mjög mikilvægan fyrir borgina. „Nú höfum við sett fram skýra og metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum byggða á bestu þekkingu og bestu hugmyndum alls staðar að.“ Segir Dagur.  „Stefnan er um leið framsækin og ber vott um skýra áætlun um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og aðlögun vegna þeirra – og vil ég fagna samstöðu allra oddvita í borgarstjórn um málið – sem er mjög mikilvægt í svo stórum málaflokki sem umhverfis- og loftslagsmálin sannarlega eru.“ segir Dagur B. Eggertsson að lokum.

Stýrihópinn um aðlögun vegna loftslagsbreytinga skipuðu oddvitar allra flokka í borgarstjórn undir formennsku borgarstjóra auk fulltrúa umhverfis- og skipulagsráðs og embættismanna. Stýrihópurinn mun starfa áfram að aðgerðaráætluninni.