Samstarfssamningur um endurgerð og starfsemi Gröndalshúss í Grjótaþorpi
Framkvæmdir Mannlíf
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, fyrir hönd Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO, og Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group undirritauðu í dag samstarfssamning til þriggja ára um stuðning við endurgerð og starfsemi Gröndalshúss – menningarsögulegrar perlu í Grjótaþorpi. Icelandair Group leggur verkefninu til 10 milljónir króna á ári, eða alls 30 milljónir.
Reykjavíkurborg keypti húsið árið 2006 til varðveislu vegna menningarsögulegs gildis og annast Minjavernd endurgerð þess. Húsið á yfir 130 ára sögu. Það var byggt af Sigurði Jónssyni járnsmiði árið 1881 sem íbúðarhús og hýsti einnig smiðju hans. Benedikt Gröndal skáld og náttúrufræðingur keypti húsið árið 1888 og bjó þar til dauðadags, en hann lést í ágúst 1907. Benedikt má kalla eitt af fyrstu Reykjavíkurskáldunum þar sem hann ólst upp í og við höfuðborgina, sem á hans tíma var að breytast úr bæ í borg. Hann skrifaði um Reykjavík og íbúa hennar merka ritgerð, Reykjavík árið 1900, og einnig gefur sjálfsævisagan Dægradvöl einstaka innsýn í íslenskt samfélag á 19. öld. Gröndalshús er merkilegt fyrir útlit sitt og er það sérstakt í byggingarsögu borgarinnar. Það var ýmist nefnt púltið, skrínan eða skattholið á tímum Gröndals vegna sérkennilegrar lögunar sinnar. Eins og áður segir sér Minjavernd umframkvæmdir í húsinu, sem er friðað, ásamt skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar. Arkitekt er Hjörleifur Sigurðsson.
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO mun sjá um rekstur hússins fyrir hönd borgarinnar. Þar verður minning Benedikts Gröndals heiðruð, svo og saga 19. aldarinnar í Reykjavík, með sýningu á aðalhæð hússins. Hún verður unnin í samvinnu við Borgarsögusafn Reykjavíkur. Í stofum Gröndals verða einnig bókmenntaviðburðir og hægt að hýsa fundi og móttökur. Í kjallara verður skáldaíbúð fyrir erlenda rithöfunda sem vilja dvelja við skriftir í borginni og vinnuaðstaða fyrir skáld og fræðimenn í risi.
Markmið samstarfs Icelandair Group og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO er fyrst og fremst að varðveita menningarsöguna í miðborginni styrkja kynningu á menningarhefð Íslendinga. Í húsinu verður stöðu Reykjavíkur sem Bókmenntaborg UNESCO lyft fram og minnt á gildi orðlistarinnar í sögu og samtíð borgarinnar. Einnig styrkir samstarfið tengsl milli Icelandair Hotel Reykjavik Marina og Bókmenntaborgarinnar sem miða að því að styðja við orðlistina í borginni og kynna hana fyrir gestum borgarinnar. Samningurinn styrkir rekstrargrundvöll Gröndalshúss og gerir Bókmenntaborginni kleift að starfrækja þetta einstaka hús sem heimili skáldskapar í hjarta borgarinnar.
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group: „Gröndalshús á sér merka og áhugaverða sögu sem er samofin þróun Reykjavíkur á 19. öldinni. Lifandi starfsemi í húsinu í miðju Grjótaþorpinu eflir miðborgina, eykur fjölbreytni og bætir skilning okkar sjálfra og gesta á menningarsögu borgarinnar. Það gleymist stundum að Kvosin er fjölmennasti ferðamannastaður landsins og fjölmargir ferðamenn koma gangert til Íslands vegna menningarlegar sérstöðu lands og þjóðar. Þar leika bókmenntirnar lykilhlutverk og staða Reykjavíkur sem Bókmenntaborg Unesco felur í sér spennandi sóknarfæri fyrir íslenska ferðaþjónustu. Íslenskar bókmenntir hafa alþjóðlega skírskotun. Margir íslenskir rithöfundar hafa hlotið verðskuldaða athygli erlendis, en góður árangur þeirra hefur jafnframt aukið hróður borgar og lands meðal erlendra ferðamanna. Markmið samstarfs Icelandair Group og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO er fyrst og fremst að efla enn frekar kynningu á þessari ríku menningarhefð og Reykjavík sem Bókmenntaborg UNESCO. Mikilvægt verkefni í byrjun samstarfs er að tryggja rekstrargrundvöll Gröndalshúss.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri: „Það er sannkallaður hvalreki að fá Gröndalshús í Grjótaþorpið, og við fögnum þessu samkomulagi um rekstur þess. Þetta einstaka hús hefur ekki aðeins sterkt svipmót nítjándu aldar, heldur ber með sér anda Benedikts Gröndal sem lifði þar og dó. Benedikt Gröndal var Reykvíkingur af lífi og sál sem lét bæjarmálin til sín taka. Hann var eitt af okkar fremstu ljóðskáldum auk þess að vera fornfræðingur, náttúrufræðingur,myndlistar- og athafnamaður. Það er fengur af Gröndalshúsi í Grjótaþorpið þar sem húsið hefur lítið breyst frá því það var byggt - en ekki síður vegna þess menningarsögulega gildis sem það hefur. Með þessum samningi fær Gröndalshús nýtt hlutverk í hjarta miðbæjarins sem menningar- og fræðahús - auk þess að verða mikilvægt athvarf í bókmenntaborg UNESCO fyrir innlenda og erlenda rithöfunda og fræðimenn, sem geta unnið þar að verkum sínum í anda fjölfræðingsins Benedikts Gröndal.“
Um Gröndal:
Benedikt Gröndal (1826-1907) var stórhugi á sínum tíma og merkur fulltrúi nítjándu aldarinnar, sem og litla húsið sem við hann er kennt.
Benedikt var rithöfundur, náttúrufræðingur, myndlistarmaður og kennari. Hann var einnig áhugamaður um mótun bæjarins og þróun Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands. Eftir hann liggja greinar og greinaflokkar um lífið í bænum þar sem hann leggur til umbætur á höfuðstaðnum í anda þess sem tíðkast í erlendum stórborgum. Minning Gröndals dofnaði um miðbik síðustu aldar en minnt hefur verið á mikilvægi hans í íslenskri bókmennta- og menningarsögu síðastliðin ár með glæsilegri útgáfu á verki hans, Íslenskir fuglar, og endurútgáfu á sjálfsævisögu hans, Dægradvöl, sem er ein rómaðasta sjálfsævisaga íslenskra bókmennta og m.a. sögð hafa haft mikil áhrif á skrif Þórbergs Þórðarsonar.
Gröndal er einnig lifandi í skáldverkum samtímaskálda og má þar nefna Sæmd Guðmundar Andra Thorssonar og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar.
Mikilvægt er að heiðra minningu slíks rithöfundar og fræðimanns sem Benedikt Gröndal var og lyfta um leið fram menningarsögu 19. aldarinnar sem fyrir margar sakir myndar grunninn að þeirri borg sem Reykjavík er í dag.