Opnun á stórri Kjarvalssýningu, föstudaginn 5. febrúar

Menning og listir

""

Kjarvalsstaðir verða opnaðir á ný með stórri sýningu á verkum Jóhannesar S. Kjarvals, föstudaginn, 5. febrúar kl. 18:00, sem jafnframt er Safnanótt.

Kjarvalsstaðir verða opnaðir á ný með stórri sýningu á verkum Jóhannesar S. Kjarvals, föstudaginn, 5. febrúar kl. 18:00, sem jafnframt er Safnanótt. Sýningin hefur hlotið nafnið Hugur og heimur, þar sem meðal annars eru sýnd verk úr sjaldséðu einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsóttur. Á sýningunni eru málverk og teikningar frá öllum ferli Kjarvals. Þar má kynnast mörgum af hans lykilverkum og fá innsýn í þau meginstef sem voru uppistaðan í lífsverki hans. Annars vegar landið í öllum sínum fjölbreytileika og hins vegar það líf og þær táknmyndir sem Kjarval skynjaði í landinu.

Sýningarstjóri er Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. Hönnuður sýningarinnar er Axel Hallkell Jóhannesson. Mikið hefur verið lagt upp úr endurhönnun Kjarvalsstaða til þess að skapa verkum Kjarvals umgjörð sem dregur fram töfra verka hans.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnar sýninguna kl. 18 og kl. 19 hefst Safnanótt með fjölbreyttri dagskrá til miðnættis.