Ný Borgarsýn komin út

Umhverfi Skipulagsmál

""
Nýtt tölublað er komið út af ritinu Borgarsýn sem umhverfis- og skipulagssvið gefur út.
Þetta er 15. tölublaðið af Borgarsýn en í því er fjallað um umhverfis- og skipulagsmál í Reykjavík og allar þær fjölmörgu framkvæmdir sem eru í undirbúningi í borginni við sundin.
 
Vorverkin eru löngu hafin í borginni en vorhreinsun í Reykjavík tekur alla jafna átta til tíu vikur. Hreinsun hjólastíga er í forgangi en annars er unnið eftir forgangslista þvert á borgarlandið. Allar gangstéttir og götur eru sópaðar og að lokum er allt þvegið en þvottur á húsagötum hófst 2. maí sl. Áætluð verklok vorhreinsunar er í fyrstu viku júní.
 
Vorhreinsun verður rétt lokið þegar grassláttur mun hefjast en í sumar verður slegið þrisvar sinnum í borginni á um 9.500 sláttusvæðum en við þjóðvegina innan borgarinnar er slegið oftar. 
 
Samkvæmt Borgarsýn verður mikið framkvæmt í Reykjavík í sumar en borgin mun á árinu verja um 9,2 milljörðum króna til uppbyggingar og viðhalds á mannvirkjum.  Þar af verður malbikað fyrir 710 milljónir króna.
 
Þá munu Smiðjustígur og Hverfisgata á milli Klapparstígs og Smiðjustígs breyta um svip í sumar en til stendur að endurnýja göturnar. 
 
Fínar greinar eru um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu, hugmyndasamkeppni um Gufunes, uppbyggingu á Kirkjusandi, Vogabyggð og vegtengingar á milli Úlfarsárdals og Reynisvatnsáss. Einnig er fjallað um umhverfismál, þéttingu byggðar, umhverfisvottun bygginga, flokkun á úrgangi og matarsóun. 
 
Borgarsýn kemur út þrisvar til fjórum sinnum á ári.



Borgarsýn 15. tbl