Nagladekk spæna upp malbikið og þyrla upp svifryki hundraðfalt á við venjuleg vetrardekk. Umhverfissjónarmið ættu því ráða miklu þegar fólk velur sér hjólbarða í borginni.
Val á vetrardekkjum getur haft áhrif á á heilsu og lífsgæði fólks. Nagladekk skapa verulega hljóðmengun í borgarumhverfinu og þau valda loftmengun sem fer ekki vel í börn og fólk með viðkvæm öndunarfæri.
Nagladekk spæna upp hættulegri ögnum úr malbiki en venjuleg vetrardekk, samkvæmt norskum rannsóknum. Þau eyðileggja malbikið og skapa þörf fyrir fjárfrekt viðhald. Nagladekk eiga sinn þátt í svifryksmengun í Reykjavík en góðu fréttirnar eru þær að notkun þeirra hefur minnkað verulega síðustu ár.
Nýleg rannsókn Vegagerðarinnar á samsetningu svifryks sýnir að hlutfall malbiks í svifryki hefur snarlækkað frá árinu 2003 eða úr 55% í 17%. Aðalaástæðan er sennilega sú að á sama tíma lækkaði hlutfall bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík úr 67% í 32%. Að minnsta kosti má gera ráð fyrir að sterkt samband sé þarna á milli. Sólarhringsheilsuverndarmörk, sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra (50 µg/m3) og agnir innan við (PM10) telst vera svifryk.
Akstur að vetri til
Meginregla í vetrarakstri í Reykjavík er að aka eftir aðstæðum. Ávallt skal fara varlega og aka hægar ef það er snjór eða hálka á götum. Hemlunarvegalengd bifreiða ræðst ekki aðeins af hjólbörðum heldur einnig hraða og yfirborði götu. Afar slæmt er að vera á slitnum dekkjum eða sumardekkjum við vetraraðstæður. Gott grip hjólbarða felst í dýpt mynsturs, þannig að vatn á veginum ýtist frá snertifletinum inn í skorurnar þannig að dekkið nái að snerta veginn þó að vatn eða snjór sé á honum.
Ráðlegt er að vera á góðum vetrardekkjum í Reykjavík. Slitsóli slíkra hjólbarða er úr mjúkri gúmmíblöndu sem ekki stífnar í kuldum og gefur gott veggrip og rásfestu ökutækja. Einnig er áríðandi að hafa réttan loftþrýsting í hjólbörðum til að þeir endist vel og virki rétt.
Mynsturdýpt ræður miklu um veggrip á blautum, hálum eða snjóugum vegum og er ólöglegt að hafa hana minni en þrjá millimetra. „Á tímabilinu frá og með 1. nóvember til og með 14. apríl skal fólksbifreið búin hjólbörðum með a.m.k. 3,0 mm mynstursdýpt, “ segir í reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja. Þetta bætir venjuleg vetrardekk og gerir nagladekk óþörf innan borgarmarka.
Tjara og önnur óhreinindi sem festast á hjólbörðum í vetrarumferðinni draga einnig úr veggripi og öðrum eiginleikum og því mikilvægt að þrífa hjólbarða bílanna reglulega með þar til gerðum efnum. Ökumenn ættu að eiga slíkan vökva í bílnum og nota reglulega. Einnig er mikilvægt að þrífa rúður vel og vera með sköfu í bílnum. Stundum þarf að skipta um þurrkublöðin. Þá er gott að eiga lásasprey.
Vetrarþjónusta gatna
Góð vetrarþjónusta á vegum er innt af hendi í Reykjavík. Þegar snjór fellur í Reykjavík eða hálka myndast er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vetrarþjónustu. Aðstæður eru vaktaðar reglubundið og mannskapur kallaður út eftir þörfum.
Snjóvakt með skipulögðum bakvöktum er í Reykjavík frá því í október til loka mars (frá 42. viku til loka 13. viku) og utan þess tíma eftir þörfum. Aðstæður eru metnar oft, meðal annars kl. 3.00 á nóttunni. Starfsmenn Reykjavíkurborgar og verktakar á vegum borgarinnar eru ræstir út þegar aðstæður kalla á viðbrögð.
Stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur njóta forgangs, en miðað er við að stofnbrautir og strætóleiðir séu færar fyrir kl. 7 að morgni og að hreinsun annarra megin umferðargatna sé lokið fyrir kl. 8. Ef vetrarveður er mikið er kjörið að taka strætó.
Fyrsti nóvember er í næstu viku og því flestir farnir að huga að því að skipta yfir á vetrardekkin, en nagladekk eru leyfileg í Reykjavík á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl ár hvert en notkun þeirra er ekki talin æskileg. Þá mun Reykjavíkurborg bjóða íbúum ef þörf er talin á að sækja sand og salt á hverfastöðvar og verkbækistöðvar til að bæta öryggi á gönguleiðum í sínu nágrenni og heimkeyrslum.
Tenglar
Vetrarþjónusta Reykjavíkurborgar
Norskar rannsóknir - umhverfisráðuneytið
Reglugerð um dýpt munsturs hjólbarða
Skýrsla yfir samsetningu svifryks
Loftmengun, malbik og nagladekk
Frétt um að nagladekk séu óþörf í Reykjavík