Miðja máls og læsis tekin til starfa

Skóli og frístund

""
Fjórir kennsluráðgjafar sem styðja eiga við kennara og starfsfólk skóla- og frístundasviðs í markvissri málþjálfun og lestrarkennslu hafa tekið til starfa.
Ráðgjafastöðin Miðja máls og læsis verður til húsa í Austurbæjarskóla og miðar að því að efla fagmennsku kennara og starfsfólks með ráðgjöf, símenntun og stuðningi. Með þessari starfssemi er leitast við að tryggja aðgengi alls starfsfólks og kennara í skóla- og frístundastarfi að ráðgjöf og stuðningi við fagleg vinnubrögð með mál og læsi og þar með byggja upp ríkulegt mál- og læsisumhverfi. Þjónustan er liður í þeirri stefnumörkun að efla málþroska, lestrarfærni og lesskilning meðal barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi í borginni. Kennsluráðgjafarnir munu einnig veita foreldrum ráðgjöf. 
 
Miðja máls og læsis mun m.a. veita kennurum stuðning við að setja upp kennsluáætlanir, standa fyrir námskeiðum hvort heldur fyrir leikskólakennara og grunnskólakennara, miðla kennsluefni á heimasíðu og veita þjálfun í nýjum vinnubrögðum. Þá mun hún veita ráðgjöf varðandi mál og læsi tví- og fjöltyngdra barna og skapa vettvang fyrir kennara til að miðla og afla nýrrar þekkingar.
 
Dröfn Rafnsdóttir mun veita ráðgjafaþjónustunni forstöðu, en aðrir starfsmenn eru Arnheiður Helgadóttir, Ingibjörg Elísabet Jónsdóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir. Þær munu á haustmánuðum heimsækja alla leikskóla borgarinnar, grunnskóla og frístundamiðstöðvar.