Grandasvæðið er áherslusvæði Menningarnætur í ár en þar hefur menningar- og mannlíf blómstrað síðustu ár. Í boði verður fjöldi áhugaverðra og óvæntra viðburða og áhersla lögð á að fólk komist vel leiðar sinnar. Ísafjarðarbær sem fagnar 150 ára afmæli í ár, er gestasveitarfélag Reykjavíkurborgar á Menningarnótt. Ísfirðingar verða með viðburði í Ráðhúsi Reykjavíkur af því tilefni auk þess sem lokaatriði Tónaflóðs Rásar 2 er tileinkað Ísafirði. Loks er vakin sérstök athygli á Grjótaþorpinu í hjarta Reykjavíkur.
Yfirskrift Menningarnætur er „Gakktu í bæinn!“ líkt og undanfarin ár og vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.
Menningarnótt markar upphaf menningarársins 2016-2017 í Reykjavík. Þá ljúka lista- og menningarstofnanir, hátíðir, listmenn, listhópar og fjölmargir aðrir upp dyrum sínum og bjóða upp á dagskrá sem endurspeglar starfsemi þeirra og það sem er framundan á árinu.
FJÖLSKYLDAN SAMAN Á MENNINGARNÓTT
Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman. Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi, en mikið úrval verður af fjölbreyttum viðburðum fyrir börn og fullorðna.
GÖTULOKANIR
Á Menningarnótt er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður því lokuð fyrir bílaumferð frá kl. 07.00 að morgni til 02.00 eftir miðnætti. (Sjá kort yfir hátíðarsvæðið á Menningarnótt) Það er gert til þess að tryggja öryggi gangandi og akandi vegfaranda á þessum fjölsóttasta hátíðardegi ársins. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að komast á hátíðasvæðið. Þeir sem þurfa að koma á einkabíl er bent á að nota bílastæði við Kirkjusand og Borgartún þar sem ókeypis strætóskutlur aka fólki til og frá hátíðarsvæðinu. Eins og lög gera ráð fyrir verður sektað fyrir ólöglegar bílastöður og þeir bílar sem hindra aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs verða dregnir í burtu svo unnt sé að tryggja aðgengi þessara öryggisaðila ef óhapp ber að.
FRÍTT Í STRÆTÓ Á MENNINGARNÓTT
Ókeypis verður í Strætó sem keyrir samkvæmt hefðbundinni leiðartöflu fram til kl. 22.30. Þá tekur við sérstök leiðartafla sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Hægt er að finna nánari upplýsingar um leiðarkerfi þeirra vagna Strætó sem aka í miðborgina á vef Strætó. Á Menningarnótt er boðið uppá ókeypis strætóskutlur sem aka reglulega til og frá stórum bílastæðum við Kirkjusand um Borgartún og að Hallgrímskirkju og Gömlu Hringbraut gegnt BSÍ frá kl. 7.30-1.00. Þessi þjónusta hefur mælst vel fyrir síðustu ár en einkunnarorð hennar eru: Leggðu fjær til að komast nær.
AÐGENGI OG ÞJÓNUSTA
Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu. Nánari upplýsingar eru á Menningarnott.is.
BORGARBÚAR BJÓÐA Í BÆINN
Vöfflukaffið hefur fest sig í sessi á Menningarnótt. Á annan tug fjölskylda og vina hefur tekið sig saman í ár og býður gesti velkomna inn á heimili sín að þiggja vöfflur og með því. Heyrst hefur að nokkrir íbúar muni tjalda öllu til og bjóða upp á tónleika og fleira skemmtilegt.
TÓNAFLÓÐ RÁSAR 2
Tónaflóð 2016 Rásar 2 í ár nefnist - Tekið ofan fyrir Ísfirðingum. Tónleikarnir eru sérlega glæsilegir en RÚV fagnar 50 ára afmæli sínu í ár. Þeir sem fram koma eru Glowie, rappararnir Emmsjé Gauti og félagar hans í Úlfur Úlfur. Á eftir þeim stígur Bubbi Morthens á svið. Foringi Fjallabræðra, Halldór Gunnar Pálsson, stýrir lokaatriðinu sem nefnist „Ljósvíkingar að vestan“ en þar koma fram helstu tónlistarmenn Ísafjarðarbæjar. Tónleikarnir á Arnarhóli hefjast kl. 20.00 og standa til kl. 23.00 eða fram að flugeldasýningu Menningarnætur.
GARÐPARTÝ - 30 ÁRA AFMÆLISTÓNLEIKAR BYLGJUNNAR OG STÖÐVAR 2
Bylgjan og Stöð 2 verða með glæsilegt garðpartý í Hljómskálagarðinum frá kl. 17 – 22.45 þar sem fram koma m.a.: Jón Jónsson, Amabadama, Bítlavinafélagið, Friðrik Dór, Mezzoforte, Valdimar, Á móti sól, Geiri Sæm og Hunangstunglið og Axel Flóvent. Boðið verður uppá veitingar í upphafi garðpartýsins.
FLUGELDASÝNINGIN
Flugeldasýning Menningarnætur í ár er í boði Reykjavíkurborgar og verður að venju glæsileg. Hún fer fram við Hörpu kl. 23 en það er Hjálparsveit skáta í Reykjavík sem sér um skipulag og framkvæmd hennar ásamt Höfuðborgarstofu. Mælt er með því að áhorfendur staðsetji sig á Arnarhóli til að njóta sýningarinnar sem best.
MENNINGARNÆTURPOTTURINN
Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi. Árið 2008 hófu Landsbankinn og Höfuðborgarstofa samstarf um Menningarnæturpott Landsbankans en í hann er hægt að sækja um styrki til viðburðarhalds á Menningarnótt. Alls sóttu 125 um styrki í ár og 32 fengu úthlutað. Flestir styrkir runnu til viðburða á Grandasvæðinu sem er áherslusvæði Menningarnætur í ár. Sérstök menningardagskrá verður einnig í útibúi bankans í Austurstræti 11 eins og fyrri ár.
DAGSKRÁ MENNINGARNÆTUR
Dagskrá Menningarnætur er að venju afar fjölbreytt þar sem hægt verður að finna skemmtun við hvert fótmál í miðborg Reykjavíkur. Hér á eftir verður talið það helsta eftir hverfum miðborgarinnar.
GAMLA HÖFNIN – GRANDI
Popphljómsveitin Milkywhale heldur í óhefðbundna hvalaskoðunarferð frá Gömlu höfninni sem er í senn útitónleikar, sigling og danssýning. Í Sjóminjasafninu verður hægt að læra að smíða eigin bát á bátaverkstæðinu. Völundarhúsið Askur Yggdrasils og Sendiráð Rockall verða á Vesturbugt. Boðið verður uppá Ljóðaslamm á Kaffislipp og Harpa býður gestum upp á glæsilega dagskrá í tilefni 5 ára afmæli hússins.
SKUGGAHVERFIÐ
Það verður mikið um dýrðir á Tónaflóði Rásar 2 við Arnarhól þar sem Bubbi, Emmsjé Gauti, Úlfur Úlfur og Ljósvíkingar að Vestan stíga á stokk. Á Klapparstíg verður hægt að dansa undir tónum Dj Margeirs. Á Hverfisgötu verða tónleikarnir Hip Hop Reykjavík. Meðal þeirra sem koma fram eru: Gísli Pálmi, GKR og Aron Can. New Neighborhoods Festival er ný hátíð sem verður haldin á Kex hostel.
KVOSIN
Á Lækjartorgi verður salsakennsla og salsadans. Karlakór Reykjavíkur mun skjóta upp kollinum víðsvegar um borgina. Í Hafnarhúsinu verður hjólastóla-diskórokk þar sem fram koma Páll Óskar, Helgi Björns og Þórunn Antonía. Hitt húsið verður með fjölbreytta dagskrá með tónleikum og gjörningum.
VATNSMÝRIN
Þjóðminjasafnið bíður upp á leiðsögn á íslensku og ensku um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til. Ari Eldjárn verður með uppistand á safninu eins og honum einum er lagið. Í Hljómskálagarðinum verður boðið upp á skátaþrautir í boði Skátafélags Reykjavíkur. Þar verða jafnframt 30 ára afmælistónleikar Bylgjunnar og Stöðvar 2 þar sem mikill fjöldi landsfrægra tónlistarmanna kemur fram.
ÞINGHOLT
Sendráð Bandaríkjanna er með opið hús þar sem hægt verður að fræðast um forsetakosningar í Bandaríkjunum og smakka alvöru Brownie. Vöfflukaffið verður á sínum stað í Þingholtunum en, þessi skemmtilega hefð heldur sínu striki og nú í tíunda skipti. Tangófélag Reykjavíkur er með útitangó á Bríetartorgi. Á Listasafni Íslands verða leiðsagnir um sýningar safnsins fyrir börn og fullorðna.
GOÐAHVERFI
Í Hallgrímskirkju verður Sálmafoss, samfelld dagskrá með kórsöng, almennum samsöng og orgelleik. Ljósmyndasýning verður í Mengi þar sem hægt er að sjá smáatriðin í borgarlandslaginu. Kaolin keramik gallerý verður með opið hús þar sem listamenn sýna vinnubrögð sín á rennibekknum og leika sér að leirnum. Húlladúllan verður á Óðinstorgi með hið sívinsæla Húllafjör.
AUSTURBÆR
Mucho miðbær verður í porti við Laugaveg 23, þar sem listamenn á vegum Studio Festisvals bjóða upp á tónlist, gjörninga og almennt glens. Gallerí Fold verður með ratleik fyrir börn og fullorðna ásamt mörgum skemmtilegum viðburðum sem standa yfir allan daginn. Á Kjarvalsstöðum verður boðið uppá fjölskylduleiðsögn og listasmiðju byggða á tveimur sýningum í safninu ásamt listamannaspjalli.
Þetta er að sjálfsögðu aðeins örlítið brot af öllum þeim atriðum sem í boði eru. Ítarlega dagskrá má finna á Menningarnott.is eða með því að hafa samband við verkefnastjórn Menningarnætur.