Breiðholt verður sannarlega á iði í vikunni 19.-25. september. Hverfið er fulltrúi Íslands í verkefninu Vika hreyfingar og íþrótta í Evrópu og af því tilefni munu 2 þúsund nemendur í 1.-7. bekk spretta úr spori á sínum hraða í íþróttatímum grunnskóla hverfisins. Samhliða spretthlaupinu verður tímataka í fullum gangi, enda hafa skipuleggjendur vikunnar lúmskan grun um að næsti Usain Bolt sé búsettur í Breiðholti. Allir hlauparar fá bol og verðlaunapening fyrir þátttökuna, en að auki mun hraðasti bekkurinn í hverjum árgangi fá afhentan bikar á lokahátíð í Íþróttahúsinu við Austurberg laugardaginn 24. september.
Heilsueflandi Breiðholt og ÍR halda utan um framkvæmd og skipulagningu Viku hreyfingar og íþrótta í Breiðholti. Alþjóðlega heiti vikunnar er FeelEwos. Verkefnið er styrkt af Erasmus+. Auk þeirra 2000 barna sem taka þátt í spretthlaupinu í Breiðholti eru önnur 10 þúsund börn á Ítalíu, Spáni, Portúgal, Króatíu og Tyrklandi sem taka þátt í verkefninu. Þetta Evrópuverkefni er því sannarlega viðamikið og spennandi og rímar vel við hreyfingaráherslu Heilsueflandi Breiðholts á komandi vetri.
Laugardaginn 24. september kl. 11:00-12:30 fer síðan fram lokahátíð í Íþróttahúsinu við Austurberg. Þar verður gerð tilraun til að setja Íslandsmet í fjöldareiptogi auk þess sem boðið verður upp á létta hreyfingu og heilsusamlega næringu. Allir íbúar Breiðholts eru eindregið hvattir til að mæta á lokahátíðina.