Hvernig á miðborgin þín að vera?

Skipulagsmál Mannlíf

""
Stýrihópur um framtíðarfyrirkomulag í málefnum miðborgarinnar hefur nú sent frá sér tillögur sem lesa má á heimasíðu borgarinnar.  Allir eru hvattir til að kynna sér drögin og senda inn ábendingar og athugasemdir fyrir 10. ágúst nk. 
Í miðborg Reykjavíkur hefur uppgangur og uppbygging undanfarinna ára ásamt verulegri aukningu í ferðaþjónustu haft mikil áhrif á mannlíf, ásýnd og starfsemi í miðborginni og áhrifasvæði hennar. Fyrirséð er að á komandi árum haldi miðborgin og nærumhverfi áfram að taka talsverðum breytingum með áframhaldandi uppbyggingu og fjölgun ferðamanna.
 
Sérstök umfjöllun er um miðborgina í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og í ljósi þess að aukning ferðaþjónustu á miðborgarsvæðinu hefur orðið mun meiri en gert var ráð fyrir við vinnslu aðalskipulagsins er nú unnið að undirbúningi og mótun breytingartillagna á miðborgarkafla aðalskipulagsins. Einnig er stefnt að gerð hverfisskipulags í miðborginni. Þá er mikilvægt að fjölga tekjustofnum borgarinnar vegna aukins ferðamannastraums, til dæmis með gistináttagjaldi.
 
Samhliða þessum verkefnum og í þeim tilgangi að huga að utanumhaldi um málefni miðborgar var skipaður stýrihópur kjörinna fulltrúa í febrúar 2015. Megin viðfangsefni stýrihópsins var að skoða framtíðarfyrirkomulag málefna miðborgarinnar innan stjórnkerfis borgarinnar sem og formlegt fyrirkomulag samstarfs og samráðs við íbúa, rekstraraðila og aðra hagsmunaaðila í miðborginni.
 
Stýrihópurinn hefur nú lagt fram tillögur að stefnu og aðgerðum í málefnum miðborgar. Þær byggja á leiðarljósum um að miðborgin sé allra, heildstæð, aðlaðandi, fjölbreytt, vel tengd og vistvæn. Innihald skýrslunnar er innlegg í vinnu við fyrirhugaðar breytingar á miðborgarkafla aðalskipulags og gerð hverfisskipulags. Í henni er gerð um fyrirkomulag málefna miðborgar sem er í fjórum liðum og snýr að skilgreiningu ábyrgðarsviðs, samráði, stefnu og framfylgd hennar með aðgerðaráætlun.
 
Allir eru hvattir til að kynna sér drög að skýrslu með tillögum stýrihópsins að stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum miðborgar og senda inn ábendingar og athugasemdir fyrir 10. ágúst nk.