Í tilefni af HönnunarMars verða hlutar Laugavegar og Skólavörðustígs tímabundið gerðir að göngugötum og er það gert til að mæta þörf vegna fjölmargra viðburða sem verða í miðborginni.
Hönnunarmars er haldinn 10. - 13. mars og verða göngugötur opnar eftir kl. 15.00 á fimmtudag og föstudag, en allan daginn á laugardag og sunnudag. Göngugötur vegna HönnunarMars verða annars vegar Laugavegurinn frá Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtstrætis og hins vegar Skólavörðustígur frá gatnamótum Bergstaðastrætis að Bankastræti. Auk þessa verður hluti Bergstaðastrætis frá Skólavörðustíg eingöngu fyrir gangandi vegfarendur, en Smiðjustígur, sem kemur í beinu framhaldi af Bergstaðastræti, er lokaður vegna framkvæmda.
Hundrað viðburða hátíð
Á HönnunarMars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum. Um 100 viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar, þar á meðal eru sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar.
Á HönnunarMars sameinast allar greinar hönnunar; fatahönnun, arkitektúr, húsgagna- og innanhússhönnun, grafísk hönnun og vöruhönnun. Viðburðir hátíðarinnar eru skipulagðir af íslenskum hönnuðum og arkitektum, en þátttakendur hátíðarinnar telja um 400 ár hvert. Aukinn fjöldi erlendra þátttakenda kemur til landsins með hverju ári og tekur þátt í HönnunarMars.