Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands skrifuðu undir stofnsamning í Höfða í morgun.
Við opnunina sagði Dagur B. Eggertsson að hann vænti mikils af setrinu sem komi til með að styrkja Reykjavíkurborg í vegferð sinni sem borg friðar. Jón Atli Benediktsson sagðist vonast til þess að með stofnun HÖFÐA Friðarseturs verði unnt að koma á fót öflugri námsbraut í átaka- og friðarfræðum við Háskóla Íslands á allra næstu árum.
HÖFÐI Friðarsetur verður vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu. Hlutverk HÖFÐA Friðarseturs er að styrkja Reykjavík í hlutverki sínu sem borg friðar og vera til ráðgjafar um hvernig borgin geti unnið að friðarmálum hér heima og að heiman. Stór þáttur í starfsemi setursins felst einnig í því að efla rannsóknir á friðar- og öryggismálum, og byggja þannig upp fræðigrunn sem nýtist langt út fyrir fræðasamfélagið, en eitt af markmiðum setursins er að koma á fót námsbraut í átaka- og friðarfræðum við Háskóla Íslands. Starfsemi setursins mun fara fram innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Opnunarmálþing HÖFÐA Friðarseturs hófst kl.13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands og stendur til 17:30, málþingið er opið almenningi og fer fram á ensku.