Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar fékk í dag heimild borgarráðs til þess að auglýsa í forvali eftir áhugasömum fyrirtækjum um rekstur hjólaleigu (bike sharing system) í Reykjavík.
Hjólaleigur (bike sharing systems) hafa tryggt sér sess í fjölmörgum borgum erlendis, sem leggja áherslur á vistvænar samgöngur. Tilgangur þeirra er að veita fólki aðgang að hjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna.
Í septembermánuði árið 2014 skipaði borgarstjóri starfshóp um hjólaleigu í Reykjavík. Minnisblað starfshópsins um hjólaleigur var svo lagt fram í borgarráði en þar lagt er til að aðkoma borgaryfirvalda verði fyrst og fremst fólgin í að skapa aðstöðu fyrir slíkar leigur en að aðrir sjái um uppsetningu og rekstur.
Góð reynsla er komin á rekstur hjólaleiga víða um heim. Á Norðurlöndunum eru t.d. tveir stórir aðilar sem hafa sérhæft sig m.a. í rekstri hjólaleiga þar sem leiga hjóla og auglýsingar standa undir fjármagnskostnaði og rekstri.
Á fundi sínum í morgun samþykkti borgarráð að auglýsa í forvali eftir áhugasömum aðilum til að koma á fót og reka hjólaleigu í Reykjavík.
Sérstök atriði sem þarf að kanna eru meðal annars, fjöldi hjóla og leigustöðva, tæknilegar lausnir, staðsetning hjólaleiga í borginni, m.a. í Kvosinni, við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og við Hlemm.
Á grundvelli viðræðna verða svo gerðir samningar við viðkomandi aðila um afnot á borgarlandinu til lengri eða skemmri tíma.
Borgarráð samþykkti samhljóða tillögu Skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar sem mun í kjölfarið auglýsa og hefja samtal um uppsetningu og rekstur hjólaleiga í Reykjavíkurborg.