Hin árlega handverkssýning Félagsstarfsins í Árskógum verður opin 21. apríl (sumardaginn fyrsta) og föstudaginn 22. apríl, kl. 13.00-17.00 báða dagana. Til sýnis verður margskonar handverk; tréverk, myndlist og fleira. Hægt verður að kaupa veitingar á vægu verði frá kl. 14.00 báða dagana. Nokkur söluborð verða opin á sýningartíma. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir á sýninguna.
Auk sýningarinnar verða áhugaverð atriði í boði báða dagana. Á opnunardeginum 21. apríl verður leikið í fyrsta sinn á fiðlu eftir Magnús Helga Magnússon sem hefur verið að vinna að smíði hennar í aðstöðu Félagsstarfsins undir handleiðslu Einars Jónassonar leiðbeinanda. Hin 15 ára gamla Arngunnur Hinriksdóttir úr Hvalfirði mun leika á fiðluna. Á seinni sýningardegi 22. apríl koma svo nokkrir félagar úr Félagi harmonikkuunnenda og skemmta gestum. Þorvaldur verður í gættinni og tekur á móti gestum með ljúfum tónum frá harmonikkunni.
Allir hjartanlega velkomnir.