„Við fáum að sjá og heyra það nýjasta sem er að gerast í loftslagsmálum og grænum málum, á alþjóðavettvangi, hjá borginni, atvinnulífinu og félagasamtökum,“ segir Hrönn Hrafndóttir verkefnisstjóri á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um loftslagsfund í Ráðhúsi Reykjavíkur á föstudagsmorgun. Fundurinn hefst kl. 8.30 og lýkur fyrir kl. 10.00. Boðið verður upp á morgunkaffi frá kl. 8.00.
Allir eru velkomnir en óskað er eftir að gestir skrái sig. Opna skráningaform.
Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna og fjölbreytt loftslagsverkefni
Á dagskrá fundarins er það nýjasta sem er að gerast í loftslagsmálum og grænum málum:
Dr. Lára Jóhannsdóttir, lektor í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ fer yfir áhrif Parísarsamkomulagsins og Marokkófundarins sem haldinn var nú í nóvember á stjórnvöld og fyrirtæki.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir grænar áherslur borgarinnar í loftslagsmálum, en Reykjavík setti sér fyrst sveitarfélaga á Íslandi heildarmarkmið í losun gróðurhúsaloftegunda og stefnir að kolefnishlutleysi.
Finnur Sveinsson formaður stjórnar Festu fer yfir áframhaldandi stuðning loftslagsyfirlýsingarinnar, en yfir hundrað fyrirtæki og stofnanir skrifuðu undir hana í Höfða fyrir ári síðan, þar sem þau skuldbundu sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Sjá nánari upplýsingar um Reykjavíkuryfirlýsinguna.
Guðmundur I. Guðbrandsson framkvæmdastjóri kynnir loftslagsverkefni Landverndar. „Sýn okkar er sú að Ísland verði kolefnishlutlaust eftir 15-20 ár og við teljum að sveitarfélögin gegni þar lykilhlutverki með því að ná til nærsamfélagsins,“ segir hann á vef Landverndar í tilefni þess að sveitarfélagið Hornafjörður hóf þátttöku í loftslagsverkefniu „Tækifærin liggja í loftinu“.
Ragnhildur Geirsdóttir framkvæmdastjóri, rekstur og upplýsingatækni segir frá loftslags- og umhverfisverkefnum hjá Landsbankanum.
Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar er fundarstjóri.
Í lok fundarins verða nýir þátttakendur í loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu teknir inn í hópinn.
Samhliða fundinum verður sýning á veggspjöldum til kynningar á fjölbreyttum loftslagsverkefnum fyrirtækja, félagasamtaka og borgarinnar. Þar verður m.a. hægt að sjá loftslagsmarkmið fyrirtækja, hvað felst í BREEAM umhverfisvottun bygginga, mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og blágrænna ofanvatnslausna til að að aðlagast loftslagsbreytingum, hlutverk þéttari byggðar, grænnar fræðslu, hjólreiðanets, borgarlínu og gasgerðarstöðvar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Nánari upplýsingar:
- Skráning á loftslagsfund - Opna skráningaform.
- Viðburður á Facebook – Leggðu loftinu lið og láttu vini þína vita.
- Loftslagsyfirlýsing Reykjavíkurborgar og Festu
- Loftslagsmál í Reykjavík – Loftslagsstefna