Foreldramorgnarnir fara fram í Vesturreitum Félagsmiðstöðinni við Aflagranda og er um að ræða samstarfsverkefni milli allra leikskóla í hverfinu, Hins hússins og þjónustumiðstöðvarinnar.
Markmið verkefnisins er að færa þjónustu nær þjónustuþegunum og er markhópurinn allir foreldrar í hverfunum þremur, Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum. Foreldramorgnarnir eru kjörinn vettvangur og tækifæri fyrir foreldra sem eru heima til að kynnast öðrum foreldrum, spjalla og eiga notalega stund í hlýlegu umhverfi. Boðið er upp á samtal/ ráðgjöf frá leikskólakennara, félagsráðgjafa og uppeldisráðleggingar frá hegðunarráðgjafa.
Boðið er upp á kaffi og te fyrir fullorðna fólkið og leikföng og bækur fyrir börnin ennfremur er boðið upp á fræðslu fyrir foreldra. Meðal þeirra sem sótt hafa þessar samveru stundir eru fjölskyldur hælisleitenda og flóttamannafjölskyldur og felst þá aðstoðin í því að koma fólki í samband við leikskóla í hverfinu, veita ráðgjöf um réttindi og aðstoða við að fá íslenskukennslu.
Verið er að koma á samstarfi við fleiri aðila eins og heilsugæsluna og þá hefur Kvennaathvarfið óskað eftir samstarfi í þessu verkefni.
Foreldramorgnarnir eru foreldrum að kostnaðarlausu og eru haldnir alla miðvikdaga frá klukkan 9.30 til 11.30 í Félagsmiðstöðinni Aflagranda 40, 107 Reykjavík