Fjölmenningarborgir funda í Ráðhúsi Reykjavíkur

Mannlíf Mannréttindi

""
Árlegur fundur Samtaka fjölmenningarborga (Intercultural Cities programme) er nú haldinn í Reykjavík. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur umsjón með fundinum sem fram fer í Ráðhúsi Reykjavíkur. 
Fundinn sækja fulltrúar frá 37 borgum sem eru aðilar að samtökunum þar á meðal Reykjavíkurborg. Rætt verður um þær áskoranir sem borgir standa frammi fyrir vegna fólksflutninga, hvernig efna megi til sameiginlegra aðgerða og þróun stefnu fyrir borgir um aðlögun án aðgreiningar.


Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar fagnar því að fundur ICC sé haldinn í Reykjavík í ár og segir að aðild borgarinnar að samtökunum hafi reynst mjög hagnýt. „Við höfum lært mikið af þátttöku okkar í samstarfinu enda fáum við mikilvægar upplýsingar frá borgum sem búa yfir meiri reynslu í þessum málaflokki en við. Þessa vitneskju nýtir borgin við móttöku á íbúum sem eru af erlendu bergi brotnir“ segir Anna.


Á fundinum verða rædd hin víðtæku verkefni fjölmenningaborga eins og þörfin á menntastefnu, hvernig bæta megi opinbera þjónustu, aðgerðir á vinnumarkaði, alþjóðasamskipti o.fl. Þá verður lögð fyrir fundinn aðgerðaáætlun samtakanna fyrir 2016 – 2019.
 
Fundinum lýkur í dag.