Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson opnaði í dag Fellsveg og nýja brú yfir Úlfarsá. Tveir ungir leikmenn úr Fram aðstoðuðu borgarstjóra við borðaklippinguna á brúnni, en það eru ekki síst fylgismenn Fram sem njóta góðs af þessari nýju tengingu, en með henni styttist akstursleið úr Grafarholti yfir í íþróttasvæðið í Úlfarsárdal. Með þessari samgöngubót mun einnig draga úr umferð í gegnum byggðina í Úlfarsárdal.
Viktoría Benónýsdóttir og Sara Rún Gísladóttir sem klipptu á borðann með borgarstjóra eru nemendur í Ingunnarskóla og æfa fótbolta með Fram.
Í Úlfarsárdal eru góðar göngu- og hjólaleiðir milli hverfanna. Í sumar verður lagður nýr stígur frá Reynisvatnsási að íþróttasvæðinu og nýja skólanum sem er í uppbyggingu. Fyrsti áfangi nýja skólans verður tekinn í notkun í haust.
Fellsvegur er tilbúinn til notkunar, en gengið verður frá yfirborði vegaxla á næstu dögum og á sú vinna ekki að trufla umferð. Gert er ráð fyrir að öllum frágangi verði lokið í maí. Verktaki er Jarðval ehf. og verkeftirlit var á hendi VSB verkfræðistofu ehf.
Hönnun Fellsvegar var unnin hjá Mannviti, en hönnun brúar hjá Eflu verkfræðistofu. Verkefnisstjóri framkvæmdar var Róbert G. Eyjólfsson hjá skrifstofu framkvæmda- og viðhalds hjá umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er 260 milljónir króna.
Upplýsingasíða í framkvæmdasjá: Fellsvegur – gatna- og brúargerð