Nagladekk eru ekki leyfileg eftir 15. apríl en hlutfall þeirra var 31% við síðustu talningu.
Hlutfall negldra dekkja á bifreiðum í Reykjavík var mælt miðvikudaginn 13. apríl 2016 og reyndust 31% ökutækja á negldum dekkjum og 69% var á öðrum tegundum dekkja. Nagladekk eru ekki leyfileg á götum borgarinnar frá 15. apríl til 1. nóvember 2016.
Margir ökumenn hafa drifið í því að skipta yfir á heilsárs- eða sumardekk og verður því vonandi lokið fyrir Sumardaginn fyrsta. Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík og eldsneytiskostnað bifreiða, þau valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum. Lögreglan hefur leyfi til að leggja sekt á nagladekk á sumrin.
Árið 2015 var einnig talið í 16. viku ársins og var hlutfall þeirra ökutækja sem voru á negldum dekkjum 28,9% og fyrir tveimur árum 24,9%. Hlutfall negldra dekkja hefur því hækkað nokkuð.
Bifreiðar á nagladekkjum eyða malbiki margfalt hraðar en önnur dekk og eiga nokkurn hlut í svifryks- og hávaðamengun. Loftgæðamælingar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sýna að svifryksmengun hefur þegar farið sex sinnum yfir heilsuverndarmörk á þessu ári en sólarhringsmörkin eru 50 (µg/m3) rúmmetrar á sekúndu.
Tengill