Borgarstjórn tekur þátt í átakinu Allir lesa

Skóli og frístund Mannlíf

""

Allir lesa er landsleikur í lestri. Leikurinn fer nú fram í annað sinn, að þessu sinni á þorra. Hann hefst á bóndadaginn, föstudaginn 22. janúar og lýkur á konudaginn, sunnudaginn 21. febrúar. Borgarstjórn ákvað í dag að taka þátt í keppninni.
 
 
Fyrsta keppnin sló í gegn en lesnir klukkutímar voru vel yfir 70.000. Þegar lestur var skoðaður eftir búsetu áttu Vestmannaeyingar efsta sætið en Reykjavíkingar lentu í  23. sæti af 74. Konur reyndust lesa töluvert meira en karlar en fróðlegt verður að sjá hvernig lesturinn dreifist árá þessu ári. 
 
Borgarstjórn ákvað á fundi sínum í dag að borgarfulltrúar myndu taka þátt í átakinu enda málefnið mikilvægt og því stigið táknrænt skref í því skyni að hvetja sem flesta til að lesa.


Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, sagði á fundi borgarstjórnar í dag að lestur og læsi væri grundvallaratriði í námi sérhvers barns. „Verkefni okkar er að gera lesturinn eftirsóknarverðan og skemmtilegan í augum barna og ungmenna sem alast upp í umhverfi þar sem bóklestur er ekki lengur sjálfsagður hluti af daglegu lífi.  Allir lesa er frábært innlegg í þá vinnu.“ Hann  bætti því jafnframt við að fulltrúar í skóla- og frístundaráði ætli jafnframt að taka þátt í keppninni.
 
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, segir gaman að því að borgarstjórn skuli sameinast með þessum hætti. „Við tökumst daglega á um pólitísk ágreiningsmál, en aukinn lestur er eitthvað sem við erum öll sammála um að sé af hinu góða og auðvitað leggjum við okkar af mörkum í þeim efnum.“
 
Aðstandendur Allir lesa eru Miðstöð íslenskra bókmennta  og Reykjavík, bókmenntaborg Unesco, með stuðningi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Allir geta tekið þátt í landsleiknum með því að stofna eða ganga í lestrarlið og skrá lestur sinn á vefinn allirlesa.is. Liðin geta verið stór eða smá, þau geta verið vinnustaðalið, fjölskyldur, vinahópar, leshringir, skólafélagar o.s.frv. Foreldrar eða afar og ömmur sem lesa með börnum sínum geta til að mynda stofnað fjölskyldulið og skráist lesturinn þá bæði á þann sem lesið er fyrir og þann sem les.
 
Opið er fyrir skráningu og hefst keppnin eins og áður segir á bóndadaginn, 22. janúar, og stendur yfir í um mánuð eða til 21. febrúar nk.
 
Liðakeppnin skiptist í þrjá flokka: vinnustaðaflokk, skólaflokk og opinn flokk.

Landsleikurinn er tilvalin leið til að hrista fólk saman og skemmta sér við lestur um leið og keppt er til sigurs. Hægt er að mynda lið með hverjum sem er, til dæmis vinnustaðnum, fjölskyldunni, leshringnum, saumaklúbbnum eða vinahópnum. Þátttakendur mynda lið og skrá lestur á vefinn allirlesa.is. Þau lið sem verja samanlagt mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar. Í lokin eru sigurlið heiðruð með viðurkenningum og verðlaunum.
 
Taktu þátt í skemmtilegum landsleik!