Bein útsending var frá fundi velferðarráðs, sem haldinn var fimmtudaginn 7. apríl, á vef Reykjavíkurborgar. Fundurinn bar yfirskriftina innflytjendur, en aðaláherslan var á stöðu hælisleitenda og kvótaflóttafólks, ekki síst hvernig unnið er að því að aukinn fjölbreytileiki skapi fyrst og fremst jákvæð viðbrögð og áhrif í umhverfi okkar.
Greint var frá því hvernig þjónustu við flóttamenn og hælisleitendur í Reykjavík er háttað ásamt því að lögð var fram samantekt um þjónustu sviðsins við notendur með erlent ríkisfang. Þar kemur m.a. fram hverjir þetta eru og hvaða þjónustu sviðsins fólk er að nýta sér.
Velferðarráð vill eiga samtal við nágrannasveitarfélög borgarinnar um málefnið og því var formönnum velferðarnefnda í nágrannasveitarfélögunum boðið að taka þátt í fundinum. Fulltrúi Rauða Krossins var með innlegg um reynslu og framtíðarsýn í þjónustu við ofangreinda hópa.
Viðskiptavinum velferðarsviðs með erlent ríkisfang hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum og tölur yfir íbúafjölda í Reykjavík í árslok 2015 sýna að þeir eru um 10% af borgarbúum.
Dagskrá fundarins;
• Málefni innflytjenda umræður og gestir.
• Lögð fram greining/samantekt vegna notenda velferðarsviðs með erlent ríkisfang dags 31. mars 2016.
• Gerð verður grein fyrir þeim ramma sem unnið er eftir og þjónustu við flóttamenn og hælisleitendur í Reykjavík.
• Fulltrúi Rauða Krossins verður með innlegg um reynslu og framtíðarsýn í þjónustu við ofangreinda hópa.
• Umræður