Áfram Ísland á Arnarhóli

Íþróttir og útivist Mannlíf

""
Undirbúningur fyrir sýningu á leik Íslands gegn Englandi á EM við Arnarhól í kvöld er í fullum gangi. Stærri skjár, sem er um 26 fermetrar og 300 tommur að stærð, og öflugra hljóðkerfi munu sjá til þess að upplifun áhorfenda verði sem allra best.
Hljóð X, sér um uppsetningu á skjánum og tæknilega hlið framkvæmdarinnar.
 
Sviðið verður neðst í brekkunni við Lækjargötu og ættu því áhorfendur á Arnarhóli að sjá vel á skjáinn. Lokað verður fyrir umferð á nærliggjandi götum, sjá meðfylgjandi kort, frá  klukkan 16.00 og útsending hefst klukkan 17.00. Lokunin stendur til klukkan 23.00 og þrengingin í Lækjargötu þar til búið verður að ganga frá á svæðinu við Arnarhól.
 
Leikur kvöldsins fer fram á Stade de Nice og hefst hann klukkan 19:00. Á leiknum í Nice verða um 3.000 Íslendingar, en búist er við að mikill mannfjöldi leggi leið sína á Arnarhól til að fylgjast með leiknum þar.
 
Í kvöld verður slökkt á skjánum á EM torginu fyrir leik Íslands og Englands og leikurinn því aðeins sýndur við Arnarhól.


Um er að ræða samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Íslenskrar Getspár, Landsbankans, Icelandair, Coca-Cola, KSÍ, N1, Símans og Borgunar.
Áhorfendur eru hvattir til að skilja bílinn eftir heima og koma með almenningssamgöngum, hjólandi eða gangandi á Arnarhól.
 
Allir á Arnarhól! Áfram Ísland!