Vöfflugerðarmeistarar Menningarnætur hittust á heimili Þóru og Gunnars í Ingólfsstræti í gær og fóru yfir undirbúning fyrir vöfflukaffið á laugardaginn. Vöfflukaffið er nú haldið í níunda sinn en hugmyndin að fyrirkomulaginu kom frá nokkrum íbúum Þingholtanna fyrir Menningarnótt 2007.
Íbúar í Þingholtunum bjóða gestum og gangandi heim og bjóða upp á kaffi og vöfflur. Verkefnið sýnir að íbúar í miðborg Reykjavíkur eru gestrisnir engu síður en íbúar landsbyggðarinnar t.d. íbúar Dalvíkur sem bjóða sínum gestum í fiskisúpu. Í gær hittust íbúar sem ætla að halda vöfflukaffi og ræddu um undirbúning og gáfu hvor öðrum ráð um hvernig best væri að baka vöfflurnar, hitastig, hversu mikið smjör ætti að setja á vöfflujárnin og hvaða meðlæti væri gott með vöfflunum fyrir utan rjóma og sultu.
Viðstaddir sögðu mjög gaman að bjóða upp á vöfflukaffi, það væri orðinn órjúfanlegur hluti af Menningarnótt, og stemningin væri afskaplega skemmtileg. Sumir bjóða gestum inn á heimili sín aðrir eru með aðstöðu í garðinum. Margir gestgjafar hafa einnig boðið upp á tónlistarflutning eða sýningar t.d. bauð einn íbúi upp á myndlistarsýningu, annar upp á sýningu á styttum, o.fl. o.fl. Nokkrir hafa komið sér upp ákveðnum hefðum eins og að láta gesti skrifa í gestabækur eða að gestgjafi standi við garðhliðið að húsinu og heilsi öllum sem til hans koma.
Oft er mikill erill í vöfflubakstrinum og margir hafa með sér aðstoðarmenn því að oft eru allt að 10 vöfflujárn í gangi í einu. Skemmtilegar sögur eru til um gesti eins og þann sem náði að fara á alla staði , borðaði alls staðar vöfflur, gaf þeim svo einkunn og skrifaði hjá sér. Aðrir stoppa lengi og njóta dagsins í vinalegu umhverfi.
Oftast eru gestgjafarnir í kringum 10-12 talsins og eru á öllum aldri, jafnt eldri borgarar sem ungt fólk og mikið um fjölskyldur eða nágranna sem taka sig saman í skemmtilegu verkefni. Oft hafa börnin tekið þátt og fengið kannski það hlutverk að moka sultunni á vöfflurnar. Nokkrir hafa verið með frá upphafi og alltaf bætast einhverjir við á hverju ári.
Ekki missa af þessum skemmtilega viðburði á Menningarnótt, hvað er notalegra en að fá sér vöfflukaffi og spjall. Sjá nánar á heimasíðu Menningarnætur